143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tvö mikilvæg skref sem verða stigin ef þessi frumvörp ná fram að ganga, en þau hafa verið lengi í undirbúningi. Það eru komin allt að 20 ár síðan byrjað var að tala um frekari sameiningu löggæsluembætta og annað slíkt. Í því felast mörg tækifæri, bæði til eflingar löggæslunnar og til eflingar framkvæmdarvalds í héraði. Ég tel að við undirbúning beggja frumvarpinu hafi farið fram mikil og góð vinna, bæði við undirbúninginn hjá ráðuneytinu, hjá hæstv. innanríkisráðherra og starfsfólki ráðuneytisins og einnig í allsherjar- og menntamálanefnd í samvinnu við þá gesti sem komu fyrir nefndina. Ég held að við séum með tvö mjög vel rædd mál sem fengist hefur góð niðurstaða í á mörgum árum.

Það var ekki mikill ágreiningur um þetta. Ég finn það á meðal lögreglumanna að þeir bíða spenntir eftir að þetta nái fram að ganga til þess að sé hægt að fara að horfa fram á veginn. Þetta hefur hangið allt of lengi yfir mönnum, ef má orða það svo, hugsanlegar sameiningar sem enginn vissi hvernig áttu nákvæmlega að líta út eða hvernig áttu að verða. Ef við náum að ljúka þessum málum núna er hægt að horfa fram á veginn og móta einhverja stefnu. Nú er einnig í vinnu gerð þingsályktunartillögu um löggæsluáætlun. Það er mikilvægt að við þá vinnu sé vitað hvernig framtíðin mun líta út.

Það hefur verið nefnt oft í dag að framkvæmdin skipti miklu máli. Það er alveg hárrétt. Það þarf að hugsa til þess að svona framkvæmd mun alltaf kosta peninga í upphafi. Þá er líka gaman að nefna að það er hvergi nefnt í þessum drögum að þetta sé hugsað til að spara fjármuni heldur til að efla starfsemina og nýta þá fjármuni sem fara í starfsemina til að veita betri þjónustu og skila skilvirkari vinnu. Þetta mun samt vissulega skapa hagræðingu fyrir ríkið í öðrum greinum og minnka álag á öðrum stofnunum og annað slíkt, ef vel tekst til.

Ég er mjög bjartsýnn á að þessi framkvæmd geti orðið góð, enda er kveðið alveg skýrt á um hún eigi að vera í góðu samstarfi við heimamenn. Þess skal líka getið að undirbúningur frumvarpsins hefur farið fram í mjög góðu samráði við sveitarstjórnarfólk og lögreglumenn og aðra. Heima í héraði hefur ráðuneytið farið á öll landsvæði og kynnt þetta mál fyrir sveitarstjórnarfólki og rætt málin ásamt því sem landshlutasamtökin komu öll fyrir nefndina.

Þá er líka mikilvægt að líta til þeirra athugasemda sem hafa komið fram um mikilvægi þess að öll útibúin séu starfandi áfram og að þar sé líka faglært fólk eins og löglærðir fulltrúar, eftir atvikum sem hentar á hverjum stað. Það eru fleiri staðir á landinu en Vestmannaeyjar sem geta virkað eins og eyjur út af landfræðilegri stöðu. Það má líka nefna að á mörgum þessum stöðum eru ekki margir lögfræðingar í plássunum, þess vegna er mikilvægt að það sé þá alla vega einn lögfræðingur hjá eina talsmanni ríkisvaldsins heima í héraði, sem er þá oftast löggæslan eða sýslumennirnir. Það er því mjög mikilvægt að sú starfsemi sé þarna.

Með þessum lögum er verið að auka möguleikann á því að hægt sé að færa frekari stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytunum og öðrum stofnunum til sýslumannsembættanna sem gerir það að verkum að fjölbreytileikinn eykst úti um allt land og starfsemin styrkist.

En af hverju er ég svona bjartsýnn á að þessi framkvæmd geti gengið vel? Það er af því að nú þegar höfum við á hinu háa Alþingi samþykkt lög sem færa fullt af verkefnum frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembættanna. Það gerðum við fyrir áramót þannig að við höfum sýnt það fyrir fram að við ætlum að standa við það sem við segjum í þessu frumvarpi. Það er mjög ánægjulegt.

Það má líka nefna í því sambandi að það er ekki verið að fækka lögreglumönnum eða löggæslustöðvum eða draga úr almennri löggæslu úti á landi. Alþingi hefur líka samþykkt 500 millj. kr. aukafjárveitingu til lögreglunnar sem var unnin í þverpólitískri nefnd og fer hún að mestu til landsbyggðarlöggæsluembætta og þeirra allra minnstu. Það er verið að senda skýr skilaboð áður en frumvarpið nær fram að ganga, að hér sé markmiðið að efla, það er sýnt í verki sem er mjög ánægjulegt. Nú þegar höfum við fengið margar fregnir af fjölgun lögreglumanna og því að búið sé að setja þá á sólarhringsvaktir og annað á mörgum stöðum, eftir útdeilinguna sem öllu Alþingi tókst svo vel að gera í sameiningu að frumkvæði hæstv. innanríkisráðherra.

Einnig er kveðið á um í frumvarpinu að gerð skuli frekari aðgerðaáætlun í samvinnu við forsætisráðherra um flutning á þessum verkefnum, þannig að það er margt sem bendir til þess að þetta muni ganga vel og við skulum öll sameinast um að svo megi verða.

Það hefur verið talað mikið um frekari sameiningar, um það hvort það ætti að vera einn lögreglustjóri á Íslandi eða hvort sameina ætti embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv. Þessi umræða hefur farið fram og það er ástæða fyrir því að hún náði ekki að rata alla leið inn í frumvarpið og inn í vinnuna. Niðurstaða þeirrar umræðu var sú að tengsl nærsamfélagsins við lögreglustjórana og sýslumennina, bæði í almannavarnaskyni og í þjónustuhlutverkinu sem verið er að sinna, eru svo mikilvæg að ekki hefur verið talið rétt að ganga þar alla leið. Þetta er ekki fjarvinnslustarfsemi, ef svo má að orði komast. Svo er hlutverk lögreglustjórans annars vegar og hlutverk ríkislögreglustjóra hins vegar ekki það sama. Ríkislögreglustjóri hefur samræmingarhlutverk og stjórnsýsluhlutverk og er með miðlægar landstækkandi deildir. Þeim hefur bæði verið að fjölga og fækka, það hefur verið í mótun. Það er umræða sem við eigum kannski að taka, hvert við viljum að hlutverk ríkislögreglustjóra sé, en ég held að mjög mikilvægt sé að hafa þá stofnun öfluga. Við skulum athuga að ekkert af því sem ríkislögreglustjóri gerir í dag er að frumkvæði ríkislögreglustjóra heldur að frumkvæði Alþingis. Alþingi hefur samþykkt að færa þau verkefni þangað. Þau verkefni sem hann hefur í dag eru landstækkandi hlutverk eins og almannavarnadeild og fjarskiptamiðstöð, bílabanki, alþjóðadeild og sérsveit ríkislögreglustjóra. Það er mjög mikilvægt að öll löggæsluembætti á landinu hafi greiðan aðgang að þessu og að þar ríki mikið traust.

Það má ræða hvort rétt væri að færa hluta af þeim verkefnum annað, en ef öll verkefnin eru sameinuð undir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu — þetta eru náttúrlega ekki verkefni sem fela í sér almenna löggæslu á höfuðborgarsvæðinu þannig að ég sé ekki strax samlegðaráhrifin — erum við komin með eina risalögreglu við hliðina á öllum hinum litlu löggæsluembættunum. Þá er ekki hægt að bera saman hvernig við þjónustum borgarana í höfuðborginni og í landsbyggðarumdæmunum, við höfum ekki samanburð yfir hvernig gengur að rannsaka mál og reka embættin fjárhagslega miðað við önnur embætti. Við ættum því frekar að huga að því hvernig við getum haft nýju embættin sem svipuðust að stærð svo hægt sé að bera þau saman og finna bestu niðurstöðuna í hverju embætti til þess að færa yfir og byggja lögregluna þannig upp sem öfluga heild.

Ég held í því samhengi að mjög mikilvægt sé við sameininguna núna að hvert löggæsluembætti verði gert sjálfbærara, eins og rannsóknardeildirnar, að þær verði sem sjálfbærastar, að hver rannsóknardeild geti núna í ljósi þess hún er orðin stærri og öflugri haft sértæknirannsóknir, eins og í tölvurannsóknum og öðru slíku, af því flest þau brot sem eru framin í dag krefjast tölvurannsóknar. Þá er mjög mikilvægt að slíkar rannsóknir geti farið fram heima í héraði þannig að hægt sé að rannsaka málið á sem fljótvirkastan og skilvirkastan hátt. Þeir sem eru heima í héraði hafa líka meiri skilning á því eftir hverju á að leita en einhver sem situr annars staðar á landinu og rannsakar samkvæmt beiðni en ekki eftir eðli málsins, eins og ef eitthvað nýtt kæmi upp á.

Svo er annað sem ég sé. Með öflugri embættum og sjálfbærari þurfum við að horfa svolítið á aukið hlutverk þessara embætta í menntun lögreglumanna. Við sjáum þá þróun innan lögreglunnar að sífellt færri sækja um á landsbyggðinni. Það vilja flestir vinna á höfuðborgarsvæðinu. Þá þurfum við að skoða hvort við getum ekki aukið fjarnámið í lögreglunáminu og gefið embættunum aukið hlutverk í hinni svokölluðu starfsmenntun og sérhæfðu löggæslumenntun og þá er jafnvel hægt að sinna símenntun og endurmenntun starfandi lögreglumanna samhliða menntun nýrra lögreglumanna og hafa grunnnámið meira í fjarnámi.

Þá er ég farinn að ræða Lögregluskólann sem er mjög mikilvægt atriði í þessu frumvarpi, að það eigi að gera nýja aðgerðaáætlun í því fyrir haustið. Það skiptir miklu máli að þar takist vel til. Þar þarf að líta á þá þróun sem ég nefndi áðan í því hvar starfsfólkið er. Það þarf einnig að líta á hvernig hlutverk lögreglunnar er að breytast. Við höfum almenna löggæslu sem á að tryggja öryggi og þjónustu borgaranna, sem er mjög mikilvægt, en svo er hlutverkið líka að verða viðameira með auknu umfangi mansals, skipulagðrar glæpastarfsemi, netglæpa, falsana, merkjafalsana í lyfjaiðnaði og mörgu öðru. Því breytta hlutverki þarf lögreglan að vera tilbúin að mæta með því að hafa Lögregluskólann tilbúinn til þess. Einnig þarf að auka rannsóknir innan lögreglunnar á því hvernig skal starfrækja lögregluna og því um líkt, auk þess að horfa til þeirrar skýru kröfu lögreglumannanna sjálfra, og held ég samfélagsins líka, um að lögreglan sé með háskólamenntun, að Lögregluskólinn sé færður upp á háskólastig. Þá eykst að sjálfsögðu við menntamálaráðuneytið og við förum inn í almenna skólakerfið með Lögregluskólann en undir faglegri stjórn lögreglunnar sjálfrar sem þarf að vera þátttakandi í að móta þær kröfur og þarfir sem lögreglan þarf að mæta í menntuninni.

Þegar þetta er allt komið þurfum við að taka mið af því í þeirri löggæsluáætlun sem við erum að vinna og komu drög að síðasta vor. Henni hefur verið hrint í framkvæmd, eins og ég fór yfir áðan, með úthlutun 500 millj. kr. og fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni. Þar er farið að horfa á þessar sameiningar, þannig að það er mikilvægt að þetta nái fram að ganga.

Mig langar aðeins að fara yfir nokkur atriði í þeim breytingartillögum sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til og þar á meðal er skipunin. Nú er það lögreglustjórinn sem sér um að skipa alla undirmenn sína. Ég tel að þetta sé svolítið mikilvægt atriði, eins og hefur verið farið yfir áður af framsögumanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar og fleirum. Þá vil ég nefna í því samhengi svokallaða húsbóndaábyrgð lögreglustjórans á starfsmönnum sínum. Þarna er hægt að gera ríkari kröfur, eða svo lít ég á, til lögreglustjórans um að hann beri ábyrgð á því að vera með hæft starfsfólk og þjálfa starfsfólk sitt og hafa það tilbúið til að sinna störfum sínum. Ef þeir gera einhver mistök beinist athyglin frekar að embættinu og lögreglustjóranum en að lögreglumanninum sjálfum. Lögreglustjórinn þarf alltaf að tryggja að hver og einn gangi ekki fram með offorsi og lögreglumaðurinn þarf að bera ábyrgð á sjálfum sér, en þegar hann sinnir starfinu er það á ábyrgð lögreglunnar að hann sé hæfur til að sinna því og þeir mega ekki leyfa neinum að sinna starfinu nema þeir telji hann hæfan og treysti honum til þess. Þeir þurfa því að axla aukna ábyrgð svo að lögreglumennirnir sjálfir sitji ekki uppi með hana.

Ég tel það fagnaðarefni að náðst hafi víðtæk sátt um að fjölga embættunum upp í níu þannig að það sé sérlöggæsluembætti í Vestmannaeyjum, sem ég tel mjög mikilvægt í ljósi þeirrar nærþjónustu sem við erum að tala um og aðgengi sem þarf að vera tryggt út af þeim samgönguþætti sem þar er. Það væri vissulega gott ef samgöngurnar væru betri þannig að þeir gætu notið meira þeirrar starfshagkvæmni sem næst en alveg ljóst er að miðað við núverandi aðstæður næst ekki frekari samlegð með því að hafa það undir öllu Suðurlandsembættinu.

Þá hef ég farið yfir flest atriðin í þessu og legg áherslu á að vel takist til. Það eru margir farnir að bíða eftir að fá niðurstöðu í þetta. Ég held að við séum með mjög góða niðurstöðu og að það séu engin vafamál og að þetta sé til framtíðar, þannig að við séum ekki að þessu loknu að fara að tala um enn eina breytinguna í lögreglunni eða hjá framkvæmdarvaldinu eða í öðru heldur einbeitum okkur að því að láta þetta takast vel, að við náum að vinna eftir þessu og byggja þetta kerfi upp og vinna samkvæmt því. Að sjálfsögðu verðum við þó að vera opin fyrir því ef það koma upp hnökrar í framkvæmdinni að bregðast við því, en að það verði ekki frekari stórar breytingar. Ég hvet alla til þess að leggjast á árar í því og róa í sömu átt.

Það er eitt sem ég vil nefna í lokin. Það hefur oft verið rætt um aðalstöð og rannsóknardeildir og hvar lögreglustjórarnir verði staðsettir og annað. Þetta er náttúrlega sú vinna sem ráðuneytið mun vinna með heimamönnum. Þá gefst mönnum tækifæri til að leggja áherslu á það sem þeim finnst réttast miðað við hvernig samfélag þeirra er saman sett. En þó yfirstjórnin sé ein stöð þýðir það ekki endilega að rannsóknardeildin þurfi að vera á sama stað. Ég hef séð að sumir halda að ef þeir hafa ekki lögreglustjórann hjá sér missi þeir rannsóknarlögreglumennina og rannsóknardeildina frá sér. Ég fyrir mitt leyti sé ég enga ástæðu til þess að það þurfi að vera staðsett á sama stað og vona að við náum að vinna þetta faglega og gagnsætt þannig að um það ríki áfram mikil sátt.