143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mig langar að byrja á því í framhjáhlaupi, af því hv. þingmaður nefndi það þegar hann var að tala um þá fjármuni sem voru lagðir til aukinnar ráðningar lögreglumanna og áttu að vera að mestu leyti til ráðninga á landsbyggðinni, að spyrja hvort hv. þingmaður geti frætt mig um það, en hann fór fyrir þeirri nefnd, hversu margir fóru á landsbyggðina og hversu margir á stórhöfuðborgarsvæðið.

Ég heyri að hv. þingmaður er nokkuð jákvæður gagnvart þessu frumvarpi og mig langar að spyrja hann út í nokkur atriði. Ég sé að frá Landssambandi lögreglumanna kom mjög ítarleg athugasemd við þetta frumvarp. Ég get síður en svo sagt að hún sé sérstaklega jákvæð í garð frumvarpsins, svona heilt yfir a.m.k. Þeir gera athugasemdir við hverjir fái að sækja um eða hljóti skipun í stöður lögreglustjóra. Þeir vilja að allar stöður verði auglýstar. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn taki undir það með þeim.

Það kemur ítrekað fram í athugasemdinni að engar athuganir hafi verið gerðar á þeim breytingum sem hafa átt sér stað á lögregluembættunum fram til þessa eða stofnanauppbyggingu lögeglunnar. Tekur hv. þingmaður undir með þeim að það hafi ekki gengið eftir eins og stofnað var til í upphafi, þ.e. varðandi þær breytingar sem hafa verið gerðar fram til þess tíma?