143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar.

Það voru, ef ég man rétt, átta lögreglumenn sem átti að fjölga um á höfuðborgarsvæðinu og 36 á landsbyggðinni sem var út af 500 milljónunum, en í fjárlagafrumvarpinu fjölgaði lögreglumönnum um 50 og 42 af þeim voru á landsbyggðinni. Það var aðallega út af auknum fjárframlögum í skipulagða glæpastarfsemi og rannsóknir kynferðisbrota og annað slíkt sem bættist þar ofan á. Fjölgunin var töluverð og náðum við á mörgum stöðum, ekki öllum, að láta þá fækkun sem hafði orðið á lögreglumönnum frá árinu 2007 ganga til baka. Það var mjög ánægjulegt.

Ég þekki athugasemdir Landssambands lögreglumanna vel, að lögreglumenn eigi að geta sótt um stöður lögreglustjóra. Ég tek heils hugar undir það. Þetta var rætt í allsherjar- og menntamálanefnd og hún gerði það að mörgu leyti, en þetta tengist öðru máli, þ.e. hvernig skipun ákæruvalds er hér. Nú er það í endurskoðun. Það verður ekki fyrr en þeirri endurskoðun er lokið, af því í dag fara lögreglustjórar með ákæruvald. Þess vegna þarf lögfræðimenntaður maður að vera lögreglustjóri. En ef við breytum þeirri skipan og einhverju í því er hægt að leyfa lögreglumönnum að verða lögreglustjórar, þá er eðlilegt að allar stöður séu auglýstar. Það er kannski ekki eðlilegt núna þar sem ekki er gerð breyting á því. Ég tek heils hugar undir það að að sjálfsögðu er betra að hafa úttekt á því þegar farið er í svona vinnu hvernig tekist hefur til.