143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Ég spyr hann þá hvort hann telji að það hefði átt að breyta því sem varðar skipun ákæruvaldsins í lögunum, hvort það sé tímabært og hvort hann leggi til til að það sé gert þannig að þetta verði heildstætt, af því þetta er það sem kallað er eftir.

Hér kemur fram, og eins og ég sagði áðan er þetta er mikil gagnrýni og hann þekkir það vel, að Landssamband lögreglumanna mótmælir því að ekki sé búið að greina með nokkru mannaflsþörfina í hinum nýju lögregluembættum í samræmi við frumvarpið og finnst þeim ótækt að hlutverk verkefnisstjórnarinnar eigi alfarið að vera að útfæra þetta. Er hv. þingmaður sammála því? Eins með að fjárhagsleg greining hafi ekki verið gerð, hvort við getum verið þess fullviss að ekki skapist af þessu viðbótarkostnaður fyrir ríkið, því að alls staðar er talað um að þetta eigi að spara, það er ekki aðeins faglegt samhengi sem lögin eiga að taka á heldur erum við að tala um ákveðinn sparnað.

Eins og ég sagði áðan er verið að vísa í að ekki hafi beinlínis verið tekið út fram til þessa hvort slíkt hafi átt sér stað nú þegar af því sem gert hefur verið og Landssambandið mótmælir því að fækkun yfirmanna sé það sem eigi að verða til þess — af því það er auðvitað launakostnaður, eins og við vitum, sem er stærsti þátturinn í öllum þessum rekstri. Hvað finnst honum um það? Mér dettur í hug þegar talað var um að fækka framhaldsskólakennurum til þess að hækka laun hinna. Eigum við að fækka yfirmönnunum til þess að bæta kjör hins almenna lögreglumanns?