143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Það er einmitt málið með ákæruvaldið að verið er að skoða það heildstætt, hvernig það eigi að vera núna, þær breytingar. Þess vegna er ekki talin ástæða til að blanda því saman við þessa vinnu. Þetta eru ólík verkefni, hvernig uppbyggingin verður, og það eina sem er samræmt er að það kallar á breytingu á lögreglulögum hvernig þetta verður gert. Ég held því að við séum á réttri leið að gera þetta svona og bíða eftir niðurstöðu um það hvernig við viljum hafa ákæruvaldið.

Með mannaflaþörfina er eins og ég sagði áðan verið að vinna að gerð þingsályktunartillögu um löggæsluáætlun. Þar er þessi mannaflaþörf öll greind, komið hafa drög að henni og þingið samþykkti það síðasta vor, sú vinna liggur fyrir þar. Eina tilvikið í því frumvarpi sem við ræðum hvað varðar fækkun á starfsfólki snýst um æðstu stjórnendur, þ.e. lögreglustjórana sjálfa og sýslumennina, það er eina fækkunin sem verður, ekki er verið að tala um að fækka öðrum yfirmönnum. Auðvitað geta einhverjar breytingar orðið þegar menn fara að búa til nýju embættin og hvernig það verður, en það vald er fært til lögreglustjóranna sem munu starfa og heimamanna sem eiga að skipa samráðsnefnd um uppbyggingu nýs embættis. Þá er Alþingi ekki að taka það að sér, heldur er verið að færa það vald til þeirra sem vinna vinnuna heima hjá sér. Ég held því að við séum í góðum málum með það. Það er breyting frá því sem áður var, af því að ég veit að umsögn Landssambands lögreglumanna byggist á umsögn þeirra frá því þetta mál var síðast lagt fram, það er breyting í þessu frumvarpi. Í þessu frumvarpi er hvergi talað um að við séum að spara fjármuni til lögreglunnar, heldur að verið sé að hagræða til að hægt sé að nýta fjármunina betur innan hennar. Þess vegna er fjárhagslega greiningin svolítið öðruvísi í þessu.