143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og fróðlega. Ég veit að hv. þingmaður er mjög vanur, bæði lögmenntaður og lögreglumaður, og því hlusta ég vel þegar hann talar um þessi mál.

Mér finnst ánægjulegt að sjá að landsbyggðarþingmenn virðast allir mjög sáttir við þetta, það virðist ríkja samhugur um að þetta sé til bóta fyrir hagsmuni landsbyggðarinnar. Það gleður mig mjög mikið vegna þess að eitt af því sem við Píratar leggjum mikla áherslu á er valddreifing, ekki bara í skilningi löggjafarvalds heldur líka framkvæmdarvalds, að framkvæmd hins opinbera eigi sér stað sem víðast á landinu til að tryggja að allir hafi sem bestan aðgang að þeim málefnum sem fólk varðar.

Það var nefnt hér áðan af hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að víða væri pottur brotinn í netmálum úti á landi og sömuleiðis vakti hv. þm. Vilhjálmur Árnason máls á því að fjarnám þyrfti að koma til í menntun lögreglumanna. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái það fyrir sér að með aukinni netvæðingu úti á landi — sem ég held að samhugur ríki um að bæta — sé hægt að dreifa verkefnum enn meira úti á land? Ég veit að hv. þingmaður hefur reynslu af lögreglustörfum og veit betur en ég og flestir aðrir þingmenn væntanlega hvaða verkefni það eru sem er hægt að vinna án þess að vera á því svæði þar sem tiltekin mál eiga uppruna, sérstaklega með hliðsjón af því að víða er pottur brotinn.

Ég velti því fyrir mér hvort þessi starfsemi geti ekki orðið aukinn þrýstingur á að við lögum netmál úti á landi, þ.e. ef hægt er að nota það til að styrkja landsbyggðina í því að takast á við þessi mál?