143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og störf nefndarinnar að því að vinna við þetta mál sem er gamall kunningi okkar hér í þinginu og hefur oft verið rætt, þ.e. fækkun þessara umdæma úti um landið í átta og níu, eins og kemur fram í tillögum.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hér sé ekki að hans viti í raun og veru allt of skammt gengið. Ísland er lítið land, við erum ekki nema 320 þúsund þegar allt er talið, kannski 330 ef hver einasti er meðtalinn. Við til dæmis í skattastjórnsýslunni ákváðum að leggja niður embætti skattstjóra úti um landið allt og gera þetta einfaldlega að einu umdæmi, skattstjóraumdæmi, þó að það væru áfram starfsstöðvar úti um landið og þær héldu áfram og fólk héldi störfum sínum við þessi verkefni úti á landsbyggðinni, og raunar fjölgaði störfum nokkuð þar í vinnslu einmitt fyrir embættið á höfuðborgarsvæðinu. En það var talið nóg að hafa aðeins eitt umdæmi fyrir landið allt og síðan stjórnendur á hverjum stað.

Væri það ekki í raun og veru markmiðið að mati þingmannsins sem ætti að stefna að og að minnsta kosti eðlileg framtíðarsýn og sú róttæka breyting sem verið er að leita eftir, að þetta sé eitt umdæmi? Auðvitað færi best á því að landið væri líka eitt kjördæmi.