143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir spurninguna.

Ef ég skil hann rétt og í samhengi við umræðu sem átti sér stað áðan um þetta sama atriði er hv. þingmaður væntanlega að velta fyrir sér hvort ekki væri réttast að leggja niður ríkislögreglustjóra og hafa þá lögregluna í Reykjavík í staðinn, ef ég skildi það rétt. Hv. þingmaður má leiðrétta mig ef ég fer rangt með. (HHj: Bara landið eitt umdæmi.) Já, að landið allt verði eitt lögregluumdæmi.

Ég þori ekki að fara með það að svo stöddu, ég verð að viðurkenna það eins og er. Það sem ég veit um lögregluumdæmi lærði ég eiginlega af því að meðhöndla þetta mál og kynna mér það, hlusta á ræður um það, af nefndastörfum og af því að lesa umsagnirnar og síðan auðvitað af viðræðum, af samtölum mínum við aðra þingmenn. Ég hallast heldur að því að fara varlega í svona málum, ekki aðeins vegna þess að mér finnst rétt að breyta stórum kerfum hægt heldur líka vegna þess að mér finnst mikilvægt að breyta slíkum kerfum í sátt við alla hlutaðeigandi, því að jafnvel þótt breytingin sé góð og jafnvel þótt hún sé sannarlega góð eru alltaf áhyggjuraddir, að því er virðist er alltaf ákveðin tortryggni til staðar. Mér finnst mikilvægt út frá lýðræðislegu sjónarmiði að bera virðingu fyrir því að fólk er hrætt við hvað Alþingi gerir ef það gerir stóra hluti í einu.

Almennt finnst mér því mikilvægt að gera stóra hluti hægt. Mér finnst það líka allt í lagi. Mér finnst mikilvægt að það ríki breið samstaða um mál af þessu tagi og mér sýnist það vera tilfellið hér. Á þeim tímapunkti finnst mér ágætt, að öllu jöfnu og vissulega í þessu máli, að ganga eins langt og allir eru sammála um að sé réttmætt og taka síðan næsta skref þegar komin er reynsla á það sem við höfum gert.