143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnast þetta nú vera spurningar sem ætti að beina til þeirra sem standa upprunalega að frumvarpinu. Auðvitað er alltaf best að hafa kostnaðaráætlun, það er náttúrlega best að vita fyrir fram hvernig fjármunum verður ráðstafað og hvað þarf. En það sem mér sýnist gegnumgangandi í þessu máli og virðist ekki vera umdeilt er tvennt: Annars vegar mun þetta kosta aðeins meiri pening, mér sýnist það vera ljóst, bæði af þingræðum og af samtölum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, ég vona að ég megi greina frá því. Það kom alla vega fram á einum fundinum að það væri óhugsandi að þetta mundi spara peninga fyrst um sinn, skiljanlega, enda kosta breytingar peninga, þær kosta vinnu og þar af leiðandi peninga.

Hins vegar virðist vera samhugur um að þetta muni auka skilvirknina. Það er líka óumdeilt að löggæslan úti á landi er ekki nógu sterk, hún er of veik. Ég þori nú ekki að segja að hún sé of óskipulögð, en vissulega er hér verið að breyta skipulaginu á þann hátt að auka á hagræðið í formi þjónustukvóta, það á að bæta lögregluþjónustuna sjálfa frekar en að spara peninga. Það má ekki vera aðalmarkmið okkar að spara peninga í þessum málaflokki. Aðalmarkmiðið hlýtur að vera að tryggja réttaröryggi borgaranna í landinu, það hlýtur að vera númer eitt. Eftir það ættum við að spyrja um kostnaðarhliðina, alla vega að mínu viti.

Svo velti ég því líka fyrir mér varðandi svona verkefni hvað hægt er að meta. Það er kannski hægt að meta hvort það kostar meira eða minna en 10 milljarða, ég veit það ekki, ég þori ekki að fara með hversu raunhæft það er að meta fjárhagslegu afleiðingarnar af verkefninu fyrr en það er farið af stað. Ég segi það af nokkru ábyrgðarleysi vegna þess að ég þekki það hreinlega ekki nógu vel og mundi sjálfur vilja spyrja aðstandendur frumvarpsins að hinu sama.