143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, jú, ég er alveg sammála því að Ríkisendurskoðun ætti að fá tækifæri til þess að skoða fjárhagshliðina á þessu, mér þykir það alveg eðlilegt.

Að því sem hv. þingmaður nefndi hvað varðaði samskipti borgaranna við lögregluna og öryggi lögreglumanna, ég lít svo á að eitt af því sem valdi tortryggni gagnvart lögreglumönnum frá borgurunum sé afleiðing af því hvernig staða lögreglumanna er, hversu slæm hún er, eins vegna þess hversu lág laun þeir fá og að þeir eru oft ekki öruggir, þeir kvarta eðlilega mikið undan því. Það er fráleitt að mínu mati að það séu heilu svæðin þar sem er einn lögreglumaður, mér finnst það algjörlega út í hött.

Það lýsir sér í aukinni hörku að lögreglan er ekki nógu sterk hvað varðar mannafla, menntun, aðbúnað og laun, harkan er kannski til þess að bæta upp fyrir það, ef svo mætti að orði komast. Mér finnst það segja sig sjálft að ef tveir lögreglumenn eiga við hundrað manna hóp sjá þeir frekar og fyrr tilefni til þess að beita meiri hörku til að bæta upp fyrir mannekluna en ef það væru tíu lögreglumenn sem ættu við hundrað manna hóp. Þess vegna sé ég þetta sem í raun hluta af sama fyrirbærinu, öryggi og kjör lögreglumanna. Ég lít á það sem hluta af því að tryggja réttindi borgaranna, vegna þess að ef ekki er í lagi með laun, kjör og aðbúnað lögreglumanna þá hlýtur það að lýsa sér í því að aukin harka verði notuð almennt í lögreglustarfinu einfaldlega vegna þess að það er þörf á henni. Það dregur bæði úr trúverðugleika og trausti til lögreglunnar að mínu mati og eykur tortryggni og það sem lögreglumenn kalla leiðindi, leiðindi frá fólki sem fyrirlítur lögregluna hreinlega vegna þess að það lítur á hana sem hörkutól, sem hún á ekki endilega að vera. Lögreglan á að vera þarna til þess að tryggja rétt og öryggi borgaranna.

Ég lít því á það sem algjörlega samhangandi verkefni að tryggja (Forseti hringir.) kjör og aðstæður lögreglumanna og tryggja borgararéttindi.