143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. ræðumaður kom hér að hafa þessi frumvörp verið rædd hér fyrr. Um talsvert miklar breytingar er að ræða og kannski ekki vanþörf á að ræða þær í þaula. Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni, það er til eftirbreytni og vonandi að takist jafn vel með þetta og sameiningu skattstjóraembættanna sem eiginlega gerðist án þess að fólk tæki eftir því. Kannski var galdurinn við það sá að starfsmenn voru þátttakendur í hinni nýju skipulagningu.

Þingmaðurinn þekkir af eigin raun miklu betur til úti á landi en ég þó að ég reyni náttúrlega að fylgjast með, borgardaman. Það er samt einhver hætta á því, er það ekki, að það verði breyting, að menn þurfi hugsanlega að flytja á milli staða? Þetta getur varla gerst án þess að það verði einhver breyting á högum einhverra starfsmanna, er það nokkuð? Gæti þingmaðurinn uppfrætt mig um það ef hún veit eitthvað meira um það en ég? Má (Forseti hringir.) ekki búast við því að fólk þurfi eitthvað að færast til?