143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum útskýringarnar. Mér finnst leiða af því sem hún telur upp hér, sem ég efast svo sem ekki um að allir hafi í huga en veitir ekki af að endurtaka góðan vilja fólks, að það skiptir mjög miklu máli að vel verði staðið að þessu og reynt að gera það þannig að hagir sem fæstra þurfi að breytast, ef ég má orða það svo.

Þingmaðurinn minntist á hæfisskilyrði lögreglumanna, t.d. aldurstakmarkið við það að taka við hærri embættum lögreglumanna. Einhverjir hafa sett út á það en ég verð að taka undir að mér finnst aldurstakmarkið 30 ára til að gegna háu lögregluembætti hæfilegt. Það segir kannski meira um mig en þá sem eru 29. Ég er samt þessarar skoðunar.

Ég er alveg sammála því að auðvitað þurfum við að treysta menntun í landinu og treysta menntun lögreglumanna ekki síður en annarra, en ég hjó eftir því að þingmaðurinn sagði og lagði sérstaklega áherslu á að menn þyrftu að taka stúdentspróf áður en þeir kæmust í Lögregluskólann. Ég skildi hana alltént svo. Mér hefur stundum fundist við einblína á stúdentspróf. (Forseti hringir.) Getur þingmaðurinn fjallað pínulítið um það?