143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt og hefur gjarnan verið sagt að menntun sé ekki allt, menntun fólks úti á vinnumarkaðnum sé líka menntun o.s.frv. Skólaganga er ekki endilega allt en í þessu samhengi var ég fyrst og fremst að hugsa um að inntökuskilyrði í Lögregluskólann eru að umsækjandi sé orðinn tvítugur og hafi lokið tveimur árum í framhaldsskóla.

Mér finnst það of lítið og held að það sé reyndar almenn skoðun að það eigi að efla námið frekar en hitt. Auðvitað þarf þetta að vera í takt við, eins og ég sagði, almannaöryggi eða kannski alla þessa sálgæslu sem er orðin miklu meiri í störfum lögreglumanna og þau verkefni sem þeir standa frammi fyrir í dag. Þegar þessar reglur voru settar á sínum tíma held ég að starfsumhverfi lögreglunnar hafi verið allt annars konar. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að auka þetta og finnst líka að það eigi að fara fram frammistöðumat hjá embættunum, eins og kom fram í skýrslunni títtnefndu sem var rædd hér í mars í fyrra. Hvert og eitt þeirra ætti að gera símenntunaráætlun fyrir hvern starfsmann í samvinnu við Lögregluskólann. Ég held að þetta sé af hinu góða en tel fyrst og fremst að það sé þroski sem þarf til að takast á við þau flóknu verkefni sem lögreglunni eru falin. Þegar lögreglunemar ljúka prófi, (Forseti hringir.) öllu heldur skóla sem er ekki (Forseti hringir.) nema þrjár annir, eru þeir kannski 22–23 (Forseti hringir.) ára. Mér finnst það bara vont.