143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns. Hvers lags togstreita verður? Hvar verður hún? Og þetta með að víla og díla með þessi embætti sem hér er um að ræða í staðinn fyrir að bein skynsemi ráði þar för.

Það er í rauninni, að mínu viti, ekki hægt að bæta þjónustustigið nema með fjölgun starfsfólks. Hér er talað um að fækka því ekki, en eins og ég sagði áðan þá held ég að þetta verði þannig að fjölgun geti orðið á einhverjum stöðum og fækkun á öðrum, sem þýðir að fólki verði hugsanlega boðin tilfærsla í starfi en það sé ekki endilega það sem það vilji. Ef við viljum bæta þjónustuna, því að við vitum jú bæði að hún hefur verið skorin niður í mörg ár og verið fjárvana, ekki síst eftir hrun því að þá þurfti að ganga enn lengra þó að reynt væri að hlífa eins og best væri á kosið, þá held ég að þrátt fyrir þær viðbótarfjárhæðir sem lagðar voru til löggæslunnar og viðkomandi embætta í fjárlagafrumvarpinu þurfum við að horfast í augu við það að sýslumenn eru líka búnir að skera niður hjá sér. Eins og ég tók dæmi um hér áðan var sýslumannsembætti í Ólafsfirði og annað á Siglufirði en nú er bara sýslumannsembætti á Siglufirði. Einn starfsmaður fékk held ég starf og fluttist yfir þannig að störfum fækkaði. Ég held að það gæti orðið raunin þegar upp er staðið.

Það sem vantar er kannski að leiðirnar að þessu markmiði eru ekki alveg skýrar og markmiðin eru ekki alveg skýr, eðlið, umfangið, breytingarnar, hvernig þetta á að líta út (Forseti hringir.) eftir breytingar. Við vitum það ekki. (Forseti hringir.) Það er auðvitað eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) sagði erfitt að samþykkja eitthvað sem maður veit ekki (Forseti hringir.) hvernig á að líta út.