143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin býsna ítarleg umræða um þessi tvö frumvörp enda var valið að taka þau saman, m.a. vegna þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skilaði sameiginlegu nefndaráliti fyrir bæði málin þó að það sé aðskilið í álitinu þannig að það er kaflaskipt. Þetta er nátengt og á sér, eins og hér hefur komið fram, mjög langan aðdraganda þar sem menn hafa sett sér það markmið að fækka sýslumannsumdæmum, fækka lögreglustjóraembættum, reyna að styrkja þau í grunninn og kannski þá fá miðlægari stjórn fyrir ákveðin umdæmi.

Við ræddum það í andsvörum fyrr í dag að það er gríðarlega brýnt varðandi skipulag á svona þjónustu á landinu í heild að vinna heildstætt. Því miður er það oft þannig að þegar íslenska ríkið vinnur að svona málum verður rof í vinnunni á milli kosninga þannig að því sem ein ríkisstjórn hefur gert er algjörlega kastað eins og gerist gjarnan hjá þeirri hæstv. ríkisstjórn sem nú starfar, hún hendir málum út af borðinu en áttar sig svo smátt og smátt á því að það er kannski ekki alveg rétt að gera þetta þannig.

Núna verður maður var við að það er verið að taka inn á borðið fullt af málum sem er búið að vera að skoða núna í heilt ár. Þau mál koma þá til afgreiðslu, jafnvel með sömu lausnunum og lágu á borðinu fyrir kosningar í fyrra.

Eitt af því sem var gert á síðasta kjörtímabili, átti sér langan aðdraganda og var ekki ágreiningslaust, var þegar menn bjuggu til sóknaráætlunina 20/20 sem var síðan bara kölluð sóknaráætlun. Hún á sér erlenda fyrirmynd, þ.e. vinnuformið þar sem margir aðilar komu saman að borðinu. Meginhugmyndafræðin var að vinna með fólki í viðkomandi héruðum. Það var gríðarleg tortryggni gagnvart þessari vinnu í byrjun en þegar á reyndi og menn fengu að forgangsraða peningum urðu þeir gríðarlega ánægðir með þetta.

Engu að síður var þessu meira og minna hent eftir síðustu kosningar en sem betur fer er núna verið að tína inn ákveðin atriði úr þessari sóknaráætlun og sum verkefni. Eins og ég sagði upplifum við þessa dagana að menningarsamningar eru algjörlega í molum, þ.e. fyrirkomulagið á þeim, vegna þess að menn hættu þar ákveðnu vinnuformi en síðan er núna verið að reyna að taka það upp aftur.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að sóknaráætlunin á eða átti að hafa það hlutverk og verður að hafa það hlutverk að reyna að samræma alla áætlanagerð í landinu, þ.e. við erum með áætlanir á ólíkum sviðum og skiptum upp í umdæmi í ólíkum málaflokkum. Þau skarast jafnvel. Við búum til kjördæmi sem gjarnan réðu skiptingu verkefna á sínum tíma, við erum með samtök sveitarfélaga fyrir ákveðin svæði og þjónustusamninga við fatlaða á öðrum svæðum. Við erum með heilbrigðisumdæmi sem voru skilgreind í reglugerð eftir lögin 2007 af þáverandi heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni þar sem var ákveðið hvernig umdæmin ættu að vera. Síðan hafa menn brotið sig út úr þessu, eitt og eitt sjúkrahús eða eitt og eitt svæði farið út fyrir. Engu að síður mundi hjálpa mjög mikið ef menn væru að vinna svona nokkurn veginn á sömu svæðunum og gætu skipulagt sig sameiginlega hvort sem við erum að tala um Vesturland í einum pakka, Vestfirði eða annað.

Málið er samt ekki alveg svona einfalt. Við erum búin að ræða mikið í dag hvernig hægt er að breyta þessu, ekki því sem er í lögum heldur hvernig það á að framkvæmast í framhaldi af lögunum. Við erum búin að ræða þessa stóru reglugerðarheimild sem hæstv. ráðherra hefur til að ákveða staðsetningu þessara embætta, annars vegar sýslumanna og hins vegar lögreglustjórans.

Það sem við höfum reynt að gera í hv. allsherjar- og menntamálanefnd er að búa til umgjörð sem veitir leiðsögn um hvernig þetta á að gerast. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir, vakti réttilega athygli á að kannski hefði leiðsögnin átt að vera ítarlegri, þ.e. hvaða forsendur ættu að liggja á bak við ákvörðun um sýslumannsembættin eða lögreglustjóraembættið. Engu að síður voru gerðar breytingar á upphaflega frumvarpinu þannig að sveitarfélögin hafa aðkomu að þessu, embættin sem slík, þ.e. fagaðilarnir sem vinna í héraði hafa aðkomu að því auk ríkisins. Það sem mér finnst mikilvægt að undirstrika hér aftur og aftur við afgreiðslu málsins er að uppi á borðinu séu allir ferlar í því hvernig ákvörðunin er tekin, hverjir tóku hana, á hverju hún byggði, hver rökin eru og af hverju þessi niðurstaða kom fram þannig að menn geti nánast sýnt fram á hvernig ákvörðunartakan átti sér stað. Það er krafa í nútímastjórnsýslu að það sé gagnsæi í sambandi við slíkar ákvarðanir og að ekki sé hægt að vefengja eða tortryggja þá niðurstöðu sem fengin er. Samt geri ég mér alveg grein fyrir að það verða skiptar skoðanir um þessi mál.

Annað stórt atriði sem ég kom líka inn á í fyrri hluta ræðu minnar en langar til að fylgja betur eftir er þetta með að flytja verkefni til sýslumannsskrifstofa sem verða áfram til en þá án þess að verða yfir svæðinu. Það er loforð og tekið fram sérstaklega hér að áfram eigi sýsluskrifstofur að vera starfandi. Eins og kemur fram í nefndarálitinu á að ákveða umdæmamörk embætta sýslumanna í reglugerð, eins og ég sagði áður, og sett með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi sýslumenn. Þessu var breytt í umfjöllun nefndarinnar þannig að hafa á samráð við landshlutasamtökin, eins og kom fram áður líka, þegar kemur að því að ákveða umdæmi sýslumannsembættanna. Að auki er lagt til að í hverju stjórnsýsluumdæmi starfi samstarfsnefnd sýslumanna.

Svo kemur í framhaldi að verkefnisstjórn eigi að fylgjast með að samstarfið verði gott. Frumvarpið felur ekki í sér að starfsstöðvum verði fækkað og þess vegna er því beint til verkefnisstjórnarinnar sem hefur með höndum undirbúning þeirra breytinga sem á að gera „að á þeim stöðum þar sem aðalskrifstofa sýslumanns verður ekki staðsett sé þess gætt að löglærður fulltrúi sé til staðar til að gæta þess að aðgangur að þjónustu verði tryggður um allt land“.

Þetta er gríðarlega mikilvægt og er ástæðan fyrir því að maður treystir sér til að samþykkja frumvörpin, og það frumvarp sérstaklega sem fjallar um þetta. Það kemur líka mjög skýrt fram í breytingartillögu að sett verði inn nýtt bráðabirgðaákvæði, III, með leyfi forseta:

„Við samþykkt laga þessara skal ráðherra í samstarfi við forsætisráðherra láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skulu þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Skal aðgerðaáætlun um flutning tilgreindra verkefna liggja fyrir ekki síðar en 1. janúar 2015.“

Í trausti þess að vel verði að þessu staðið treysti ég mér til að samþykkja þetta frumvarp. Það eru góð dæmi um staði úti á landi þangað sem verkefni hafa verið flutt og við sem fylgdumst með þessu, m.a. þingmenn í Norðvesturkjördæmi, og höfum fylgst með breytingunum þar á undanförnum árum, kortlögðum á tímabili hvernig hefði tekist til með ýmsar verkefnatilfærslur og líka hversu margir sóttu um störf þar, hvernig menntunarstigið var eftir tilflutning á verkefnum, eins og gerðist með Fæðingarorlofssjóð, Innheimtustofnun sveitarfélaga o.fl. Það kom í ljós að það var ekkert erfitt að manna þessar stöður, það var betra menntunarstig en hafði verið áður, áður en viðkomandi stofnun eða verkefni hafði flutt, og verkefni höfðu gengið afar vel. Það hefur ýmsa kosti að vera með verkefnið utan Reykjavíkur vegna þess að stjórnsýslan hefur að mörgu leyti breyst þannig að það þarf ekki lengur að ganga inn á gólf til að eiga samskipti við fólk út af öllum smæstu atriðum.

Ástæðan fyrir því að verið er að berjast fyrir þessu er ekki bara sú að hafa það af Reykvíkingum að sinna ákveðnum verkefnum heldur að við eigum mannafla og húsnæði og við eigum íbúðarhúsnæði fyrir fólk úti um allt land sem á að nýta þannig að fólk verði ekki hrakið af stöðunum til höfuðborgarinnar. Þess vegna skiptir alveg gríðarlega miklu máli að vel verði að þessu staðið. Ég veit að það er ásetningur allra nefndarmanna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fylgja þessu eftir, en ég vil endilega að þetta verði ítrekað aftur og aftur í umræðunni til að það leiki enginn vafi á því hvað er á bak við þau frumvörp sem hér eru lögð fram, hvaða ætlanir við höfum til þeirra sem vinna svo í framhaldi við reglugerðarsmíð og annað sem tengist þessu máli.