143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[17:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við var í rauninni að það þarf væntanlega að biðja Ríkisendurskoðun að taka út það sem búið er að gera nú þegar. Það hefði kannski átt að vera búið að því svo við gætum metið það enn þá frekar sem við erum að fara að takast á við núna.

Varðandi undirbúninginn, vandaðan undirbúning og reglu fjármálaráðuneytisins, þá er það einmitt það sem mér finnst fjármálaráðuneytið vera að gagnrýna í umsögn sinni um breytingu á lögreglulögum og aðskilnað embætta lögreglustjóra og sýslumanna þar sem beinlínis er sagt að ekki liggi fyrir rekstararáætlanir eða stjórnsýslugreining um áformaða starfsemi um endurskipulagninguna eða kostnað verkefnisstjórnarinnar eða neitt slíkt, þannig að ekki er hægt að meta fjárhagsleg áhrif af þessu. Það getur ekki talist hluti af vönduðum undirbúningi eða verið hluti af reglum fjármálaráðuneytisins sem hv. þingmaður var að vísa í. Það er kannski það sem mér hefur þótt athugunarvert í þessu.

Síðan hef ég aðeins áhyggjur af því að í frumvarpinu um sýslumennina eða framkvæmdarvaldið og stjórnsýsluna, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Áformað er af hálfu innanríkisráðuneytis að nýta það svigrúm sem kann að felast í endurskipulagningu sýslumannsembættanna til að mæta aðhaldskröfum liðinna ára, en e.t.v. einnig til að efla ýmis verkefni. Gert er ráð fyrir að hagræðingarmöguleikar muni koma fram á næstu fjórum árum eftir gildistökuár laganna.“

Það sem ég hef áhyggjur af er að í rauninni er verið að segja hér að mæta eigi gömlum vanda. Ég taldi að við værum að bæta hér í samkvæmt títtnefndri skýrslu og ég tók þátt í umræðu um fyrir ári síðan, en ég hef líka áhyggjur af því að það verði akkúrat raunin sem hér kemur fram, þ.e. að (Forseti hringir.) embættin verði látin borga upp einhvern gamlan halla með þessu en fái ekki fé (Forseti hringir.) í aukinn rekstur.