143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

ríkisfjármál.

[13:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það er mjög margt mjög mikilvægt sem ríkissjóður þarf að standa straum af með útgjöldum. Til dæmis er að mínu mati mjög mikil og stór uppsöfnuð fjárþörf í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og öllum innviðum þessa samfélags eftir langvarandi niðurskurð. Ég þori að veðja að þessi fjárþörf muni koma upp á yfirborðið með reglulegu millibili, alltaf þegar við ræðum fjárlögin hér á kjörtímabilinu.

Spurning mín var ósköp einföld. Þegar við mætum kröfum um meiri peninga úr ríkissjóði, mun þá þessi 20 milljarða plús reikningur vegna mjög umdeildra skuldaniðurfellinga til heimila alltaf njóta forgangs sama hvað á dynur, sama hvaða tekjupóstar fara úr ríkisreikningnum? Mun þá þessi útgjaldaliður alltaf njóta forgangs? Og hvað þá til dæmis með niðurgreiðslu opinberra skulda? Við erum einn skuldsettasti ríkissjóður Evrópu og nú erum við að fara að ræða hér frumvarp sem segir að skuldir hins opinbera eigi ekki að vera hærri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu. (Forseti hringir.) Ef það frumvarp hefði þegar verið samþykkt, gæti þá hæstv. fjármálaráðherra komið þessu í gegn? Væri þá ekki ólöglegt að fara í skuldaleiðréttingu?