143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

málefni Landsbankans.

[14:12]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta byggingarmál Landsbankans hefur ekki verið rætt sérstaklega í ríkisstjórn, ég hef aðeins heyrt um það fjallað í fjölmiðlum eins og hv. þingmaður. Ég skal alveg viðurkenna að mér þykir óneitanlega mjög sérkennilegt ef menn eru farnir að velta því fyrir sér einungis fimm árum eftir að bankinn komst í þrot og skrapp í framhaldi af því mikið saman að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar, ég tala nú ekki um ef það yrði risastór glerhöll á dýrasta stað borgarinnar og þar með landsins. Það er reyndar önnur saga.

Ég tel að það megi ekki byggja of mikið af stórum glerhýsum alveg upp að Hörpu heldur eigi að nýta það svæði á annan hátt, en það er önnur saga. Niðurstaðan er sú að ef þetta er tilfellið kemur það mér mjög mikið á óvart og að sjálfsögðu ætti Landsbankinn í þeirri stöðu sem hann er í núna að einbeita sér að því að greiða skuldir sínar og að hluta til mun hann samhliða því greiða arð í ríkissjóð, enda um ríkisbanka að ræða.

Hvað varðar hins vegar viðræður um breytingar á skuldabréfi milli gamla bankans og þess nýja þá hef ég engar nýjar fréttir að færa í því, en þar er þó mjög mikilvægt að menn fari varlega. Ég hef reyndar aldrei skilið hvernig mönnum datt í hug að semja á þeim nótum sem nú er verið að reyna að semja sig frá eða breyta. Það er mjög furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að menn skuli hafa samið á þann hátt. Vonandi tekst að leysa úr því og það verður þá að gerast á þann hátt að það setji ekki greiðslujöfnuð landsins í hættu eða skapi fordæmi sem menn gætu litið til annars staðar, óheppileg fordæmi.