143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

málefni Landsbankans.

[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætissvör. Þótt bæði málin séu stór sem ég spurði um er enginn vafi á því að skuldaskil á milli gamla og nýja Landsbankans eru risamál sem við ræðum lítið einhverra hluta vegna. Það er mál af gríðarlegri stærðargráðu. En það er oft svo með stór mál að þau fá litla athygli. En ég vonast nú til þess að hægt sé að leysa úr því máli og er sammála túlkun hæstv. ráðherra á málinu í heild sinni.

Við þurfum oft að taka hluti frá Evrópusambandinu og stundum er það þannig að sumt hentar kannski ekki bankakerfi Evrópu og þá svo sannarlega ekki hér heldur. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í annað mál. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að lágmarka tilskipun varðandi bankabónusa eins mikið og mögulegt er. Mér finnst hins vegar að við hefðum átt að læra af þeirri reynslu að það eru oft og tíðum óeðlilegir hvatar sem þar myndast og ekkert sem réttlætir þann framgang og þá samninga sem verið hafa (Forseti hringir.) í gangi á undanförnum árum og áratugum. Höfum við einhver tök (Forseti hringir.) á því að miða bankabónusa meira við íslenskan veruleika?