143. löggjafarþing — 104. fundur,  6. maí 2014.

vátryggingastarfsemi.

584. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til aðkallandi breytingar á ákvæðum um félagsslit vátryggingafélaga, uppgjör vátryggingastofns o.fl.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Fjármálaeftirliti og fjármála- og efnahagsráðuneyti sem kynntu málið og svöruðu spurningum nefndarmanna. Nefndin ákvað að flytja málið. Frumvarpið liggur fyrir á þskj. 1048 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Fjármálaeftirlitið hefur orðið vart við ákveðna vankanta á lögum um vátryggingastarfsemi og þá sér í lagi vankanta á ákvæðum er varða starf skilastjórna í tengslum við uppgjör vátryggingastofns og slit vátryggingafélaga. Að mati Fjármálaeftirlitsins torvelda þessir vankantar störf skilastjórnar og þannig er stefnt í hættu hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra. Vankantar þessir felast m.a. í því að í lögum um vátryggingastarfsemi er ekki gert nægilegt ráð fyrir annarri slitameðferð en gjaldþrotaskiptum. Að vísu er opnað á þann möguleika í 3. mgr. 91. gr. laganna en hann er ekki útfærður með fullnægjandi hætti.

Almennt virðast vátryggingafélög í nágrannaríkjunum fara í sérstakt slitaferli áður en til gjaldþrotaskipta kemur. Þannig er skapað nauðsynlegt ráðrúm til að lágmarka tap vátryggingartaka og þeirra sem kröfu eiga á endurgreiddum iðgjöldum auk þess sem áframhaldandi rekstur er forsenda þess að tjónauppgjör og útgreiðsla tjóna geti átt sér stað. Til að bregðast við því eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem jafnframt eru til þess fallnar að auka samræmi við löggjöf nágrannaríkjanna og við þau markmið sem fram koma í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB.

Ég vík þá að einstökum efnisgreinum.

Í a-lið 1. gr. er lagt til að réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni félagsins verði óvirkur þegar skipuð hefur verið skilastjórn yfir félaginu og er horft þar til sambærilegs ákvæðis í lögum um fjármálafyrirtæki.

Í b-lið 1. gr. er lagt til að skilastjórn skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag félagsins. Á meðan hún ræður yfir félaginu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart félaginu og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal skilastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni félagsins að brýna nauðsyn beri til þess. Horft er til sambærilegs ákvæðis í lögum um fjármálafyrirtæki.

Í c-lið er að finna tilvísun í tillögu að nýju ákvæði laga um vátryggingastarfsemi.

Í d-lið 1. gr. er gert skýrt að Fjármálaeftirlitið getur eitt gert kröfu um að vátryggingafélag verði tekið til gjaldþrotaskipta og er tillagan í samræmi við 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/17/EB.

Í e-lið 1. gr. er áréttað að Fjármálaeftirlitinu er falið eftirlit með slitameðferð vátryggingafélags þrátt fyrir að starfsleyfi þess hafi verið afturkallað líkt og raunin er um fjármálafyrirtæki í slitameðferð.

Nauðsynlegt þykir að skýrt sé að Fjármálaeftirlitinu sé falið slíkt eftirlit vegna þeirra almannahagsmuna sem um ræðir við uppgjör vátryggingafélaga.

Í 2. gr. frumvarpsins er leitast við að setja ramma utan um uppgjör vátryggingafélags eftir að starfsleyfi þess hefur verið afturkallað en áður en til gjaldþrotaskipta kemur. Nauðsynlegt þykir að undanskilja skilastjórn frá ákvæðum laga er leggja þá skyldu á hana að beiðast gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi ef hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra er betur borgið með því að reka félagið áfram og leitast við að gera upp vátryggingaskuldbindingar með öðrum hætti.

Í ákvæðinu er jafnframt lagt til að miðað verði við að skilastjórn ljúki uppgjöri vátryggingafélags á innan við þremur árum frá skipunardegi. Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að framlengja þennan frest í tvígang um eitt ár í senn þjóni það hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra.

Það er mikilvægt að skilastjórn hafi heimild til greiðslu og uppgjörs tjóna að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið sem samþykkir framkomna áætlun skilastjórnar um uppgjör vátryggingastofns. Tilgangur ákvæðisins er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra og skulu aðgerðir skilastjórnar miða að því að gæta hagsmuna þeirra.

Með 3. og 4. gr. frumvarpsins er verið að innleiða 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB, þar sem segir að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skuli ein hafa heimild til þess að taka ákvörðun um að hefja slitameðferð líftryggingafélags og vátryggingafélags.

Með 5. gr. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Nefndin hefur fjallað um málið og stendur að frumvarpinu. Lagt er til að málinu verði vísað til nefndar að lokinni þessari umræðu.