143. löggjafarþing — 104. fundur,  6. maí 2014.

vátryggingastarfsemi.

584. mál
[14:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanninum fyrir skýringarnar, að það væri verra ef við teldumst ekki hafa innleitt gerðirnar með fullnægjandi hætti og gott að þingmaðurinn vill ráða bót á því. Ég vil þó undirstrika spurninguna um hvers vegna málið þarf að verða að lögum í dag, því að mörg mál eru brýn og ágæt samstaða um að þau þurfi að verða að lögum en það má yfirleitt alveg taka vikuna í það og gefa aðilum færi á því að veita um þau umsagnir og annað þess háttar. Er eitthvað að gerast á morgun eða þarf þetta nauðsynlega að gerast fyrir opnun einhverra markaða eða er eitthvað sem kallar á að þetta verði að lögum í dag? Það kallar auðvitað á margítrekuð afbrigði frá þingsköpum að hátta málsmeðferðinni þannig.

Síðan vildi ég nota tækifærið og taka eindregið undir með hv. þingmanni hvað varðar að setja mörk á það hversu lengi fjármálafyrirtæki geti verið í slitameðferð eins og hér er verið að gera ráð fyrir með vátryggingafélögin, þ.e. að það séu tímamörk á slitastjórnunum þar eins og gert er ráð fyrir með vátryggingafélögum, kannski með einhverjum framlengingarmöguleikum, en það séu þá framlengingar sem slitastjórnirnar þurfi að sækja og rökstyðja efnislega að forsendur séu fyrir. Það er mikilvægt að þrotabú föllnu bankanna séu ekki einhvers konar eilífðarvélar sem verði að stofnunum í sjálfu sér. Til þess voru lögin sannarlega ekki sett og fyrst við gátum lagt niður skilanefndirnar hljótum við að geta fylgt því eftir að slitastjórnirnar sitji heldur ekki að eilífu.