143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndarálitið er að finna á þskj. 992 og þar er getið um gesti þá sem komu á fund nefndarinnar og einnig er frumvarpinu lýst.

Fyrir nefndinni var lýst stuðningi við markmið frumvarpsins um að lækka gjöld til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Menn greindi hins vegar á um hvort rétt leið hefði verið valin við lækkunina og hvort hún væri nægileg þegar litið væri til tiltekinna hagsmuna. Þá var dráttur á málsmeðferð gagnrýndur.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 13. febrúar sl. Mælt var fyrir frumvarpinu 18. mars sl. og þann dag var því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Á næsta reglulega fundi, 26. mars, óskaði nefndin skriflegra umsagna um málið. Umsagnarfresti lauk átta dögum síðar, 4. apríl sl., og á reglulegum fundi sínum 9. apríl tók nefndin á móti gestum. Þess ber að geta að páskahlé samkvæmt þingsköpum stóð frá 14.–27. apríl og það skýrir hve málið hefur dregist. Svo hefur náttúrlega verið mikil umræða um önnur mál undanfarna daga, en hér erum við komin og ræðum þessar gjaldskrárlækkanir sem beðið er eftir.

Að mati hv. meiri hluta kemur frumvarpið í rökréttu framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningsgerð skömmu fyrir síðustu áramót. Þá er efni frumvarpsins í samræmi við þá stefnumörkun sem fram kom við gerð fjárlaga fyrir 2014. Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins átti það að öðlast lagagildi 1. mars sl. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu vegna þess hve frumvarpinu hafði seinkað að ákvæði frumvarpsins öðlist gildi 1. júní 2014. Jafnframt eru lagðar til breytingar á dagsetningu við 3. gr. frumvarpsins.

Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem koma fram á þessu fylgiskjali, ég ætla ekki að lesa þær. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, Pétur H. Blöndal framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.