143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um þetta mál. Ég hef gluggað í nefndarálit hans í málinu. Jafnvel þó hér sé um að ræða gjaldalækkun sem maður í útgangspunkti mundi taka fagnandi þá er samt sem áður ýmislegt við þetta mál að athuga. Hv. þingmaður nefndi sumt af því í ræðu sinni, meðal annars framgang málsins hér í þinginu og sleifarlag stjórnarmeirihlutans við að koma þessu fram, þ.e. að efna þau loforð sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga fyrir áramót.

Það má þá kannski rifja það upp að í kjölfar þeirra kjarasamninga voru þeir felldir af mörgum félögum Alþýðusambandsins sem bersýnilega töldu þá ekki koma nægilega til móts við þær væntingar sem þar voru uppi og það á væntanlega meðal annars við það sem er að finna í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

En maður hlýtur að velta því fyrir sér, meðal annars í ljósi þess sem þingmaðurinn gat um — hann nefndi hér að væntanlega kæmi frumvarpið ekki til framkvæmda fyrr en á miðju þessu ári eða 1. júní miðað við það sem nú er lagt upp með sem þýðir að þeir sem málið varðar, þ.e. sem njóta lækkunar á þessum gjöldum, fá ekki þá lækkun fyrir árið í heild eins og lagt var upp með við gerð kjarasamninga. Hefur þingmaðurinn einhverjar hugmyndir um það hve almenningur í landinu er að verða af mikilli lækkun í krónum talið miðað við þá seinkun sem hefur orðið á málinu? Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji að sú leið sem hér er valin, að fara í eldsneytis-, áfengis- og tóbaksgjöld, sé kannski þær bestu umbætur eða mesta lækkun fyrir almennt launafólk í landinu sem menn hefðu getað látið sér detta í hug.