143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara strax hv. þingmanni um seinni lið spurningarinnar þá er það afstaða mín að þetta hafi verið eins óskynsamleg leið til að tryggja aðkomu að kjarasamningum og hægt var að finna. Það lá fyrir að ríkisstjórnin var búin að hafna því að láglaunafólk fengi nokkuð út úr skattalækkunarviðræðum. Þetta er hinn hluti framlags ríkisins. Skattar voru lækkaðir, eins og hv. þingmaður man án efa, um sem nemur 5 milljörðum. Þar af fóru um 3 milljarðar, blessunarlega, fyrir tilverknað stjórnarandstöðunnar og samstöðu okkar með verkalýðshreyfingunni, til meðaltekjuhópa frekar en til allra tekjuhæsta fólksins, við löguðum ójöfnuðinn í þeim tillögum. Engu að síður var það þannig að lágtekjufólk, fólk með tekjur undir 250 þús. kr., fékk ekkert í sinn hlut út úr skattaþættinum. Orðræða ríkisstjórnarinnar var á þann veg að það fólk mundi fá eitthvað út úr þessu. Það fólk er ekki að aka eldsneytiskrefjandi bílum út um allar koppagrundir og algerlega órökstutt að til dæmis lækkun gjalda í heilbrigðisþjónustu hefði ekki nýst því fólki betur.

Miðað við mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er hér um að ræða lækkun upp á 460 millj. kr. á ársgrundvelli og það þýðir að fyrst verið var að draga úr — og það var auðvitað það sem fyrirheitið hljóðaði upp á 21. desember þó að í upphaflegu frumvarpi hafi verið gert ráð fyrir gildistöku 1. mars. Hér er því um vanefnd að ræða sem nemur 230 millj. kr. af 460. Vanefndirnar hljóða upp á um helminginn af því sem fyrirheit var veitt um.