143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sem virðist ráða gerðum ríkisstjórnarinnar og valinu í þessu frumvarpi er að ná hámarksáhrifum, með lítilli breytingu á gjöldum ríkisins, á verðbólgumælingar. Þetta er með öðrum orðum vísitölufitl af gömlu sortinni. Það er ekki verið að horfa á raunverulegar kjarabætur heldur að finna einhverja leið til að reyna að ná fram áhrifum og það er auðvitað hægt að tryggja að þau nái fram í áfengis- og tóbakstilvikinu en ekki er hægt að tryggja að þau nái fram í tilviki bensínsölunnar vegna þess að álagning þar er frjáls og enginn veit í reynd hvar þessi litla lækkun mun koma fram eða hvort.

Að því er varðar það hvort þetta séu fullnægjandi efndir og hvort ekki hafi komið til greina af hálfu nefndarinnar og hvort ekki þurfi að ræða það að gera á málinu breytingar þá er það auðvitað þannig að ríkisstjórnin var loðin í orðfæri í yfirlýsingunni 21. desember. Það er kannski lærdómurinn fyrir verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins að treysta ekki aftur þessari ríkisstjórn því það sem hún segir vísar nú aðeins víðar en þetta frumvarp. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiði verði minna en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands. Á grundvelli þessa óljósa orðalags ákveður ríkisstjórnin að gera ekkert við gríðarlegar hækkanir á komugjöldum en fara frekar í að fitla við vísitöluna.

Ég held að það skipti máli að draga lærdóm af þessu. Þetta hemur ekki ríkisstjórnina með nægjanlega skýrum hætti, þetta orðalag. Það er augljóslega ekki hægt að treysta þessari ríkisstjórn þegar kemur að verkefnum um félagslega samstöðu eins og barátta gegn verðbólgunni og kjarabætur almennings eru.