143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni og umhugsunarverð. Það er náttúrlega þess vegna sem við gagnrýndum ríkisstjórnina fyrir áramót fyrir að fylgja ekki fordæmi Reykjavíkurborgar og bjóðast til að frysta gjaldskrár, vegna þess að það sendir skýr skilaboð um verðstöðugleika, gerir einkafyrirtækjum erfiðara að hækka gjöld og sýnir að ríkið er að leggja eitthvað á sig til að reyna að halda niðri verðbólgu. Ef menn treysta ekki ríkinu til að draga vagninn í baráttu við verðbólgu gerist ekki neitt, því það ætlar enginn að gera minna en ríkið, það ætlar enginn á markaði að hækka verð minna en ríkið. Þannig togar ríkið upp verðbólguvæntingar með því að ganga á undan með því fordæmi að hækka gjöld.

Þegar síðan kemur að því að bregðast við, eins og núna með lækkun þeirra, hefur það vissulega í för með sér, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að tekjur ríkissjóðs dragast saman frá yfirstandandi áætlun. Það er mjög óljóst hvernig á að mæta því. Það er sagt: Með auknum arðgreiðslum frá ÁTVR. Við vitum að það er hægt, en þegar breytt er fyrirkomulagi við álagningu tóbaksgjalds, er þá ekki einhver sem greiðir þetta gjald einhvers staðar annars staðar? Getur það í alvöru verið trúverðugt framlag ríkisstjórnar að draga úr álagningu á sígarettureykingamenn og auka hana á pípureykingamenn eða á einhvern annan hátt fitla við gjöld af þessum toga? Það er auðvitað ekki hluti af því að tryggja verðstöðugleika í landinu og taka þátt í því af hálfu ríkisins.

Að síðustu er það að sjálfsögðu algerlega undir hælinn lagt að þau gjöld sem eru innheimt af einkaaðilum, eins og olíufélögunum, skili sér til almennings. Það mun vissulega skila sér í tekjutapi fyrir ríkisstjórn en mun verð örugglega lækka um þetta til almennings? Það er engin leið einu sinni að fylgja því eftir og fylgjast með því. Það er alger óvissuferð.