143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með hvort þingmaðurinn hafi tölur um hve mikið umhverfis- og auðlindaskatturinn mun lækka tekjur ríkissjóðs og svo stimpilgjaldalækkunin. Hver eru áhrif breytinganna, hvernig munu þær skila sér í tekjutapi? Það er ekki talað um það í frumvarpinu né hvernig þetta skilar sér nákvæmlega. Bensínmarkaðurinn er náttúrlega fákeppnismarkaður og við sjáum að lækkanir á bensíngjald skila sér illa, til skemmri tíma skila þær sér illa út í verðlag.

Hérna eru menn að tala um að lauslega metið gæti vísitala neysluverðs lækkað um 0,08% verði frumvarpið að lögum, svo fremi sem áhrifunum verði að öllu leyti velt út í verðlagið með samsvarandi aukningu í kaupmætti ráðstöfunartekna. Það er því eins og þingmaðurinn nefnir engan veginn víst að þetta muni skila sér. Það er það sem við sjáum, fákeppnismarkaðinn og að menn hafa í fortíðinni stundað samráð, en það er alveg ljóst að á fákeppnismarkaði og bensínmarkaði skila lækkanir, hvort sem það er á heimsmarkaðsverði á olíu eða lækkanir á eldsneytisgjaldi, sér seint og illa út í verðlagið. Það væri gott ef þingmaðurinn gæti upplýst okkur um hvort hann hafi upplýsingar um lækkanirnar á umhverfis- og auðlindasköttunum og áhrifum á tekjur ríkissjóðs hvað það varðar sem og stimpilgjöldin, og líka olíugjaldið og kílómetragjaldið. Það er ekki inn í tölunni með frumvarpinu.