143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er náttúrlega með miklum ólíkindum hvernig haldið hefur verið á þessu máli hér í þinginu, auðvitað fyrst hvernig það kemur fram af hálfu hæstv. fjármálaráðherra en ég verð að segja það að ekki hefur það batnað í meðförum nefndarinnar. Ég þakka þingmanninum fyrir að draga það skýrt fram að í raun og veru er verið að hafa tæplega 200 milljónir af launafólki í gjaldalækkunum sem lofað var í desember með því að seinka gildistökunni til 1. júní og ástæða til að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki algert lágmark að gjaldskrárlækkunin verði þá 2% en ekki 1% úr því hún á aðeins að gilda fyrir rétt liðlega hálft árið.

Þessi þróun er auðvitað ákveðið umhugsunarefni. Er ekki, hv. þingmaður, að birtast okkur hér þessi skýra hægri pólitík um það að lækka skatta, eins og þeir kalla það, í því formi að beinir skattar á eignafólk og hátekjufólk eru vissulega lækkaðir en þjónustugjöld hvers kyns sem leggjast á almenning, eins og skólagjöld og gjöld í heilsugæslunni og heilbrigðiskerfinu, eru óspart hækkuð til þess að vinna upp tekjutapið? Er ekki verið að birta okkur þær áherslur eina ferðina enn sem ég held að hljóti að spila talsvert mikla rullu í þeirri auknu svartsýni sem er orðin meðal fólks í landinu með lágar tekjur og lægri meðaltekjur, eins og við höfum séð í könnunum undanfarið?

Hv. þingmaður nefndi að hann mundi nota þessa fjármuni til að lækka á tveimur eða þremur stöðum, beina þeim á markvissari hátt og hann nefndi komugjöldin í heilsugæslunni. Gæti þingmaðurinn nefnt (Forseti hringir.) einn eða tvo staði í viðbót þar sem hann teldi sérstaka ástæðu til að nota þá peninga sem til ráðstöfunar eru til að lækka gjöld?