143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og fagna því að hann kallar eftir því að málið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr. og að aðilar vinnumarkaðarins verði fengnir til fundar og farið yfir það hvort ekki séu þessar 460 milljónir til ráðstöfunar. Það kemur manni auðvitað á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli hafa forustu um það fyrir þinginu að draga úr þeim gjaldalækkunum sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að vilji sé til að fara í, eins og gert er með breytingartillögu nefndarinnar hér við 2. umr. Þegar hv. þingmaður nefnir flutningskostnað og bensíngjald er eins og hringi einhverjum bjöllum. Það er eins og mig rámi í að ekki sé ýkja langt síðan nefndur hv. þm. Pétur H. Blöndal, framsögumaður meiri hlutans í málinu, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson fluttu hér þingmál um að það ætti alls ekki að hækka eldsneytisgjöld heldur ætti þvert á móti að lækka eldsneytisgjöld verulega og með því væri ríkissjóði engu að síður tryggðar jafn miklar tekjur og ella, vegna þess að fólk mundi kaupa þeim mun meira af bensíni sem eftirgjöfin á gjöldunum yrði meiri. En nú sýnist mér að þessir sömu hv. þingmenn hafi einmitt verið að hækka bensínverðið um liðlega 3% um síðastliðin áramót og ætli að draga úr hækkuninni um 1% núna á miðju ári og séu þess vegna alls ekki að lækka bensíngjöldin eins og þeir boðuðu sjálfir í þingmálum nýverið heldur beinlínis að hækka þau og álögur á raunar allan flutningskostnað.