143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður setti mig í svo gríðarlegan vanda með innganginum að spurningu sinni en hann hljóðaði eitthvað á þessa leið: Ef ræðumaður væri hægri maður, hvernig mundi hann þá taka afstöðu til eða bregðast við málum? Ég verð bara að gera þá játningu hér, sem er svo sem ekki nein játning, ég er stoltur af því, að það hefur bara aldrei hvarflað að mér, ég hef aldrei svo að ég muni til nokkurn tímann reynt að setja sjálfan mig inn í það samhengi hvað ég mundi hugsa eða gera ef ég væri hægri maður. Það hefur verið svo fjarlægur veruleiki í minni tilveru frá unga aldri að á slíkt hefur aldrei reynt.

Varðandi lækkunina eða þennan leik sem þarna er í gangi þá minnir mig að ég muni það úr forsendum fjárlagafrumvarpsins, eða einhvers staðar úr þessum skjölum, að þessar almennu verðlagsuppfærslur og gjaldskrárhækkanir hafi átt að skila tæpum 2 milljörðum kr. Þær sem slíkar áttu að styrkja tekjugrunn ríkisins um 1.800 milljónir, 2 milljarða, 2,2 milljarða eða eitthvað þannig. Það er úr hluta þessa sem verið er að draga, þ.e. eftir því sem aðilar vinnumarkaðarins upplýstu lofuðu þeir framlagi inn í þetta upp á um það bil 460–500 millj. kr. og að þeir mundu lækka úr 3% í 2% þá gjaldskrárflokka sem hér er borið niður með. Auðvitað er það leikur að hækka þetta fyrst í desember um 3% og lækka svo sumt af því aftur niður í 2% og reyndar ekki fyrr en 1. júní. Það er mikill leikur.

Ég spurði að því í nefndinni af hverju ríkið legði ekki sitt af mörkum með því að ákveða að yfir línuna verði hvergi farið um fram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það hefði verið myndarbragur á því að komugjöld og skráningargjöld og bensíngjald og olíugjald og allt hefðu hvergi verið hækkuð (Forseti hringir.) um meira. Það hefðu verið mikilvæg skilaboð inn í það að menn ætluðu að styðja Seðlabankann í því verkefni sínu að ná verðbólgu inn fyrir viðmið, en það var ekki gert.