143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hér með kosningabækling Sjálfstæðisflokksins frá því í síðustu kosningum. Þar koma fram á fyrstu síðu forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á næsta kjörtímabili. Þar er meðal annars talað um að lækka skatta og auka ráðstöfunartekjur. Það fyrsta sem farið er í er að hækka þessi gjöld um næstum því 2 milljarða, eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, svo að nú á að fara að lækka þetta eitthvað örlítið til baka.

Eitt af því sem skal lækka er bensínverð, með lægri eldsneytisgjöldum. Ekki er búið að ná því fram, það er búið að hækka það verulega, 3%, og nú á að fara til baka um 1%. Það eina prósent á að koma til á hálfu þessu ári, eins og komið hefur fram í ræðum annarra þingmanna, sem þýðir að í raun er einungis um að ræða lækkun upp á hálft prósent á þessu ári.

Við höfum talað mikið um forgangsröðun. Í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins frá því í síðustu kosningum er liður sem heitir Ábyrg ríkisfjármál, rétt forgangsröðun. Fyrsta mál sem þar er nefnt er: Forgangsröðun í þágu grunnþjónustu. Þetta er eitthvað sem ég veit að grasrót flokksins er mjög hrifin af, grunnþjónustan, að hana skuli ekki skerða. Samt er farið í að leggja komugjöld á sjúklinga og hækka þau í staðinn fyrir að nota það svigrúm sem er til að sleppa þeim. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hafi kynnt sér þetta. Mér sýnist þetta vera algjörlega á skjön við það sem flokksmenn Sjálfstæðisflokksins raunverulega vilja.