143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru sumir sem eiga erfitt með að segja „æ“ og tala um að „hakka“ og „lakka“ en ekki „hækka“ og „lækka“, sérstaklega á yngri árum. Mér er næst að halda að sjálfstæðismenn eigi við einhverja svipaða talörðugleika að stríða þannig að þegar þeir segja „lækka“ meini þeir í raun og veru „hækka“.

Eins og þingmaðurinn dregur fram hafa forustumenn flokksins hér í þinginu farið fram og talað um nauðsyn þess að lækka gjöld á eldsneyti, lækka bensíngjöldin, lækka olíugjöldin, og ekki bara lækka þau smávegis heldur lækka þau verulega. Þeir töluðu sannarlega ríkulega um það í kosningabaráttunni og eflaust í öllum sínum kosningabæklingum og það hefur eflaust átt góðan hljómgrunn hjá grunninum í flokknum, eins og hv. þingmaður kallar það, eða hjá hinum almennu stuðningsmönnum flokksins. Veruleikinn sýnir okkur það svart á hvítu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins meintu ekkert með þessum orðum og meina ekkert með þessum orðum, því að þeirra fyrsta verk er að hækka bensíngjöldin, hækka olíugjöldin, hækka eldsneytisgjöldin, og jafnvel þó að hér sé kannski dregið um 0,6% úr 3% hækkuninni stendur eftir sem fyrsta verk þeirra hækkun um nærri hálft þriðja prósent þegar eftir nokkra mánuði í stjórnarmeirihluta.

Ef þingmaðurinn flettir hér upp í þingtíðindunum um gjaldahækkanirnar veturinn 2008–2009 þá mun hann sjá miklu stærri og meiri dæmi um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn getur hækkað opinber gjöld ofboðslega og haft frumkvæði um og forustu fyrir því þegar hann er í stjórnarmeirihluta. En hann talar alltaf um allt annað þegar hann er í stjórnarandstöðu. Hann meinar bara ekkert með því.