143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég er sammála henni að megninu til. Það eru nokkur atriði sem mig langar kannski að draga hér fram. Í fyrsta lagi er mjög áhugavert að lesa umsagnirnar um frumvarpið og þá ekki síst frá Alþýðusambandi Íslands og Starfsgreinasambandinu, og það eru nú hin stóru samtök launafólks í landinu.

Í umsögn Starfsgreinasambandsins er því lýst að það kæmi tekjulægstu hópunum í þessu landi og þeirra félagsmönnum betur að lækka til dæmis gjaldskrárnar í heilbrigðiskerfinu en að fara þessa smáskammtaleið. Þetta hljómar vel, lækkun á bensíngjöldum, en þetta er ósköp lítið og þetta mun kannski ekki hafa nein sérstök áhrif á heimilisbókhald nokkurs í þessu landi.

Þeir nefna það líka að það sé alls óvíst að þær lækkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu skili sér að fullu til neytenda og hafi þannig tilætluð áhrif á vísitölu og verðbólgu.

Þá komum við að öðrum áhugaverðum þætti sem snýr að umsögn ASÍ sem segir að áhrif frumvarpsins verði helmingi minni en metið er samkvæmt greinargerð með frumvarpinu. Þar er sagt að áhrifin á vísitöluna verði til 0,08% lækkunar en samkvæmt umsögn ASÍ telja þeir það mikið ofmat og að það verði kannski heldur 0,04–0,05%.

Þetta verð ég að draga fram í ljósi ræðu hv. þingmanns og nefna að ég er henni sammála. Ég spyr hana þá í leiðinni: Hvað telur hv. þingmaður að meðalúthverfafjölskylda sé að fá í lækkun á bensíngjaldi yfir árið út úr þessu frumvarpi? Erum við að tala um tíkalla eða hundraðkalla?