143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, hin venjulega úthverfafjölskylda, hvað fær hún í lækkun út úr þessu frumvarpi? Ég held að leitun sé að aðila sem gæti svarað þeirri spurningu, það er svolítið eins og að leita að nál í heystakki. Ég held því miður að fólk muni ekki sjá það með neinum hætti. Varðandi bensíngjaldið og þær lækkanir þá sveiflast þau gjöld það mikið til að það er ekkert sem segir til um hvað veldur nákvæmlega. Eins og ég nefndi áðan held ég að það hefði verið skilvirkara að koma með lækkun á olíu- og þungaskatti þar sem það hefði áhrif til lækkunar á vöruverði í landinu, vegna mikilla flutninga með vörur og matvæli vítt og breitt um landið.

Ég tek undir það álit Starfsgreinasambandsins að með góðu móti væri hægt að nýta þessa fjármuni betur, það eru ekki háir fjármunir sem um ræðir; þeir eru orðnir, miðað við þetta frumvarp, hluti, 2/3, af því sem áætlað var í upphafi. Það er auðvitað algjör forsendubrestur. Ég nefni líka lækkun komugjalda og endurskoðun á reglugerð um sjúkratryggingar, sem er að hækka ýmsa þætti varðandi sjúkra- og iðjuþjálfun í landinu fyrir það fólk sem hefur mjög litla peninga handa á milli.

Aðeins varðandi bensíngjaldið og olíugjaldið þá er það nú svo með margar fjölskyldur sem eru kannski á lægstu töxtum innan Starfsgreinasambandsins að það fólk hefur ekki einu sinni efni á því að reka bíl, hvað þá heldur annað.