143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál endurspegli mjög vel forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, eða kannski forgangsleysið, ég held að menn séu ekki að hugsa þetta alveg til enda. Í síðustu fjárlögum fundu menn breiðu bökin í námsmönnum og þeim sem hafa lægstu tekjurnar, og farið var mjög skart þar inn. Tökum bara innritunargjöldin á háskólastigið, þar munar nú aldeilis um fyrir þá sem eru að sækja sér menntun. Þar voru býsna háar upphæðir undir og það skilar sér ekki einu sinni til skólanna heldur voru þær bara notaðar sem bein tekjulind fyrir ríkið.

Síðan eru það komugjöldin sem munar allverulega um. Ég gæti alveg trúað því að við bestu aðstæður skili lækkun á bensíngjaldi hækkun fyrir einni komu fyrir einn einstakling í heilsugæsluna, kannski það. Þetta er því ofsalega þunnt smurt og sannarlega ekki að mínu mati verið að miða þetta inn á rétta staði og þar sem mest munar um.

Það væri óskandi að menn sæju að sér milli umræðna og skiluðu í það minnsta því að í staðinn fyrir að láta þetta taka gildi frá og með 1. júní og skila bara rétt rúmum helmingi af því sem lofað hafði verið við undirritun kjarasamninga, þá skili menn þó allri fjárhæðinni á þessu ári þannig að það muni um þetta að meira leyti en bara örfáum hundraðköllum. Hækkanirnar á öðrum sviðum gera það að verkum að verið er að þyngja álögur á þá sem hafa lægstu tekjurnar. Þetta er bara sýndarfrumvarp, sýndarlækkanir sem hér eru að eiga sér stað.