143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl. sem ríkisstjórnin hét að flytja í tengslum við gerð kjarasamninga í desember síðastliðnum. Í athugasemdum með frumvarpinu er m.a. vitnað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013 sem kynnt var aðilum vinnumarkaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu í tengslum við gerð kjarasamninga. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands (2,5%).“

Ríkisstjórnin var sem sagt reiðubúin að koma að málum við gerð kjarasamninga, leggja sitt af mörkum, eins og oft hefur verið með ríkisstjórnir, þær eru reiðubúnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga með einhverjum hætti. Framlag ríkisstjórnarinnar í þetta skipti var það sem segir í þessari yfirlýsingu. Ríkisstjórnin var gerð afturreka með vissar breytingar á skattkerfinu, frumvarp, sem hafði verið samþykkt hér um breytingar á skattkerfinu þar sem fyrst og fremst var lækkuð skattbyrði hátekjuhópa. Ríkisstjórnin var knúin til að gera vissar breytingar til að koma til móts við millitekjuhópa en hún var ekki á nokkurn hátt fús til þess að lækka skatta eða koma til móts við lágtekjuhópa með hækkun persónuafsláttar eða eitthvað í þeim dúr sem launþegasamtök höfðu farið fram á.

Við höfðum séð það í verkum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að hún er fyrst og fremst ríkisstjórn þeirra sem hafa það gott í samfélaginu efnalega séð. Þannig höfum við séð skattkerfisbreytingarnar sem hún hefur beitt sér fyrir, þannig höfum við séð meðhöndlunina á auðlegðarskattinum, þ.e. ákvörðunina um að framlengja hann ekki. Þannig höfum við séð veiðigjöldin, afsláttinn til útgerðanna o.s.frv. Þannig eru verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar.

En ég hélt satt að segja að þegar kæmi að því að koma með innlegg við lausn kjarasamninga mundi ríkisstjórnin reyna að beina sjónum að þeim sem kjarasamningarnir snúast um, þ.e. almennu launafólki í landinu og þeim hugmyndum sem það hefur sett fram og koma til móts við þau sjónarmið. Þess vegna má velta því fyrir sér, og kannski hefði maður í fyrstu atrennu sagt sem svo: Lækkun á þeim gjöldum sem frumvarpið gengur út á getur haft áhrif til lækkunar á vísitölu og þar af leiðandi á skuldir heimilanna þannig að það kemur sér öllum vel. En þegar grannt er skoðað er ekki endilega þar með sagt að svo verði og maður hlýtur líka að velta því fyrir sér, og það er eðlilegt innlegg í þessa umræðu, að þegar ríkisstjórnin segist ætla að beita sér fyrir breytingum á vissum gjöldum sem samþykkt hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga af hverju hún hefur þá ekki haft samráð og hafði þá ekki samráð við launþegahreyfinguna um það hvaða gjöld væri heppilegast að færa niður. Það hefur hún ekki gert.

Það er heldur ekki að sjá að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi haft fyrir því heldur. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er til að mynda í engu svarað þeim athugasemdum sem fram koma í umsögnum um málið. Ég hef tekið eftir því í fleiri nefndarálitum sem komið hafa frá síðustu þingkosningum að í nefndarálitum frá meiri hluta núverandi ríkisstjórnarflokka er iðulega ekki brugðist við þeim athugasemdum sem fram koma í umsögnum. Það er algerlega nýtt og það er vanvirða við þá sem senda umsagnir til nefndarinnar og nefndanna að ekki sé brugðist efnislega við þeim athugasemdum sem þar koma fram og þeim þá svarað eftir atvikum að tekið sé tillit til þeirra eða það rökstutt af hverju það er ekki gert. Hér er ekki orð um það, ekki orð um þau sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni í umsögnum eða í gestakomum og reynt að bregðast við eða svara því. Það er vond breyting á starfsháttum Alþingis, vil ég segja vegna þess að í mínum huga er það sjálfsagt að nefndin bregðist við athugasemdum sem fram koma við afgreiðslu mála, ekkert endilega þannig að hún sé sammála þeim en að hún segi frá í hverju athugasemdirnar voru fólgnar og af hverju hún bregst þá ekki við þeim. Nú komast menn bara upp með að láta ekkert frá sér fara um slíkt og það er ekki gott. Það skiptir nefnilega máli fyrir það sem á eftir kemur þegar menn kynna sér hvernig mál hafa verið afgreidd, hvernig sjónarmið hafa komið fram og hvaða sjónarmið ráða ferðinni við afgreiðslu mála. Það skiptir máli að þau séu rakin í nefndaráliti, að gerð sé fyrir þeim álitamálum sem fram koma og svarað af hverju nefndin kemst að einhverri tiltekinni niðurstöðu varðandi afgreiðslu mála.

Ég hef hér fyrir framan mig bæði umsögn Alþýðusambands Íslands og umsögn Starfsgreinasambandsins, en þar er komið inn á vinnulag og efnisatriði þessa máls. Kjarasamningar voru undirritaðir 21. desember. Þá kemur þessi yfirlýsing frá ríkisstjórninni. Frumvarpið kom inn í þingið sennilega um miðjan febrúar og það leið meira en mánuður þangað til mælt var fyrir frumvarpinu og því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þannig að ekki var ríkisstjórninni mikið í mun að koma málinu áfram. Frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram gerði ráð fyrir því að það tæki gildi 1. mars síðastliðinn. Sá tímafrestur var löngu liðinn þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu hér á þingi 18. mars. Þegar ráðherrann mælti fyrir málinu var þegar ljóst að gildistökuákvæðið gekk ekki upp. Ekki var á þeim bæ að sjá mikinn áhuga á því að koma málinu hratt og vel í gegnum þingið. Alþýðusambandið segir m.a. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið telur með öllu óásættanleg sú töf sem orðið hefur á málinu [sic]. Í því birtist áhugaleysi stjórnvalda á að styðja við forsendur aðila vinnumarkaðarins sem skapað geta grundvöll fyrir auknum efnahagslegum stöðugleika hér á landi.“

Í umsögn Starfsgreinasambandsins er vísað í formannafund aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og vísað í ályktun þess fundar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær gjaldskrárhækkanir sem tóku víða gildi um áramót voru í hrópandi ósamræmi við nýgerða kjarasamninga og urðu til þess að draga úr trú launafólks á að takast mætti að halda niðri verðbólgu og auka kaupmátt. Þá hafa félög innan Starfsgreinasambandsins haldið til haga kröfu um hækkun persónuafsláttarins eða að skattbreytingar kæmu með öðrum hætti þeim tekjulægstu til góða. Ríkisvaldið verður að kannast við sinn hluta ábyrgðarinnar á að friður ríki á vinnumarkaði. Formenn Starfsgreinasambandsins krefjast þess að samtök launafólks eigi aðkomu að gjaldskrárbreytingum og leggja áherslu á að létt sé álögum af fólki sem þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu.“

Í umsögn Starfsgreinasambandsins er einnig talað um afdrif kjarasamninganna, en þeir voru felldir í flestum aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Þegar þau afdrif voru ljós hafði farið fram rýnivinna innan félagsins um niðurstöðuna og af hverju samningarnir voru felldir víðast hvar. Útkoman úr þeirri vinnu sýnir, svo vitnað sé í umsögnina, með leyfi forseta, „svo ekki [er] um villst að samningarnir féllu meðal annars á vantrausti á því að ríkið stæði við sínar skuldbindingar“.

Að mati Starfsgreinasambandsins var það sem sagt vantrú á því að ríkið mundi standa við sínar skuldbindingar sem átti þátt í því að kjarasamningarnir voru felldir. Bæði í umsögn Alþýðusambandsins og Starfsgreinasambandsins er lögð áhersla á að nær væri að lækka gjöld sem kæmu tekjulægstu hópunum betur til góða og ætti þá ekki síst að færa niður þær miklu hækkanir sem urðu m.a. í heilbrigðisþjónustunni upp á tugi prósenta í sumum tilfellum. Það er varla að maður trúi því að þingmenn í stjórnarflokkunum ætli að láta þetta yfir sig ganga, að fara svona að. Eftir allt sem á undan er gengið og bent hefur verið á; ríkisstjórnarflokkarnir tala og vinna trekk í trekk máli þeirra sem best eru settir efnahagslega í samfélaginu, að þetta komi svo í kjölfarið þegar komið er með aðgerðir til að greiða fyrir samþykkt kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir félagsmenn Alþýðusambandsins, að þá skuli ekki reynt að koma betur til móts við þá hópa en hér er gert.

Að mati Alþýðusambandsins er það heldur ekki þannig að aðgerðirnar skili sér með þeim hætti sem lesa má út úr greinargerð eða athugasemdum með frumvarpinu. Það segir m.a. í umsögn Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Hvað varðar einstaka þætti frumvarpsins er það mat Alþýðusambandsins að mun æskilegra hefði verið að taka til endurskoðunar miklar hækkanir á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustunni sem tóku gildi um áramót. Þær hækkanir koma illa við viðkvæma hópa auk þess sem leiða má að því líkur að lækkanir á umræddum krónutölugjöldum og gjaldskrám sem í sumum tilvikum er brot úr krónu muni skila sér illa út í verðlag til neytenda og því hafa takmörkuð áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs. Í greinargerð með frumvarpinu er áætlað að lækkun umræddra gjalda geti lækkað vísitölu neysluverðs um 0,08%. Að mati ASÍ er hér um talsvert ofmat að ræða og ólíklegt að áhrif aðgerðarinnar á vísitölu neysluverðs verði meiri en 0,04–0,05% að því gefnu að þau skili sér að fullu til lækkunar á verðlagi.“

Frú forseti. Alþýðusambandið metur það sem sagt þannig að áhrifin séu helmingur af því sem gerð er grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu að því gefnu að þau skili sér að fullu til lækkunar á verðlagi. Síðan eru efasemdir um að þetta skili sér að fullu út í verðlagið. Hvernig ætla menn að hafa eftirlit með því? Ég verð að segja alveg eins og er að þó að maður skilji að áhugi sé á því að draga úr þeirri hækkun á þeim gjöldum sem hér eru til umfjöllunar til að uppfylla vilyrði sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við gerð kjarasamninga þá held ég að sú leið sem hér verður fyrir valinu sé mislukkuð, hún muni ekki hafa þau áhrif sem til er ætlast, hún muni ekki koma félagsmönnum Alþýðusambandsins að því gagni sem til er ætlast og sé þar af leiðandi ekki það innlegg í lausn kjaradeilu eða gerð kjarasamninga sem ætlunin var að hún yrði, nema síður sé.

Menn geta t.d. velt fyrir sér, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði hér í andsvari áðan við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, hvað það geti verið í krónum talið sem gjöld manna lækka. Það er kannski erfitt að fullyrða nákvæmlega um það, það fer auðvitað eftir aðstæðum t.d. hvað menn kaupa mikið brennivín og hvað menn reykja mikið hvað menn fá í lækkun gjalda eða hversu mikið menn keyra bílana sína. (Gripið fram í.) Það er það sem ræður því hvað menn fá í vasann út úr þessari aðgerð í meginatriðum.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að almennt vörugjald á bensín lækki um 0,24 kr. á hvern lítra, úr 25,20 kr. í 24,96 kr. Hvað þýðir það? Ef maður reiknar þessa 24 aura, almennt vörugjald á bensíni, fyrir bíl sem ekinn er 15 þúsund kílómetra á ári, eyðir kannski 8 lítrum á 100, hverju skilar það? Innan við 300 kr. á ári, það er bara eitt dæmi. Sjálfsagt mætti reikna fleira út. Ég tel að það sé eiginlega ekki hægt að styðja þetta frumvarp jafnvel þótt ætlun þess sé að vera liður í aðgerðum í tengslum við gerð kjarasamninga, ekki síst vegna þess hvaða gjöld verða fyrir valinu. Þetta eru gjöld eins og bensínskattarnir, sem annars vegar eru auðvitað hugsaðir sem tekjustofn fyrir framkvæmdir í vegamálum, en eldsneytisgjöldin eru líka notuð til stýringar í tengslum við umhverfismál, um það hvers konar eldsneyti við notum, hvers konar samgöngumáta við notum o.s.frv. Gjöld á áfengi og tóbaki eru ekki bara fjáröflun fyrir ríkissjóð, þau eru líka liður í því hvernig við stýrum heilbrigðismálum okkar og forvörnum, þá eru þessi gjöld valin.

Af öllu því sem ríkisstjórnin hefði getað lagt af mörkum í þessum efnum er valið að lækka gjöld af brennivíni og tóbaki, en í þessu birtast auðvitað pólitískar áherslur núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er kannski ekkert sérstaklega nýtt í því að þessir flokkar skuli þá beita sér með þessum hætti. Af hverju var ekki frekar valið að draga úr hækkunum á nauðsynjaútgjöldum, útgjöldum sem menn geta ekki komist hjá? Þeir hlutir sem hér eru undir eru valfrjálsir í flestum tilvikum. Ekki er valið að fara í komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar, ekki er valið að draga úr innritunargjöldum við opinbera háskóla sem hækkuð voru um tugi prósenta og skila sér ekki einu sinni til háskólanna eins og hér hefur verið bent á. Og svo er verið að lækka raforkuskattinn úr 13 aurum í 12,9 aura, en það er jú stóriðjan sem borgar að uppistöðu til raforkuskattinn, 75–85%. Allt ber að sama brunni.

Málið er að mínu viti þannig úr garði gert að það væri nær fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að taka það til sín á milli umræðna, og hefur nú þegar verið beðið um það, að því er ég best veit, að málið gangi aftur til nefndar á milli umræðna, og hafi endaskipti á því sem hér er lagt til og menn fari frekar í aðra þætti, fyrir utan það sem nefndin verður auðvitað að taka á, þ.e. áhrifin af þeirri frestun á gildistöku sem nú liggur fyrir. Frestur á gildistöku frá 1. mars til 1. júní þýðir að þær fjárhæðir sem ríkið ætlaði að leggja inn í gerð þessara kjarasamninga skila sér ekki. Áhrifin verða þá minni eftir því þannig að ríkið stendur einfaldlega ekki við það sem það lofaði, burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa svo á þeirri leið sem það valdi. Það er annar handleggur.

Frú forseti. Hvað mig varðar þá á ég mjög erfitt með að fella mig við það sem lagt er til í þessu frumvarpi og tel að velja hefði átt aðrar leiðir til að mæta þeim sjálfsögðu loforðum að leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.