143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni í öllu, sér í lagi ekki varðandi stýringu á neyslu fólks.

Mig langar að spyrja þingmanninn. Ef við erum alveg sanngjörn sagði ríkisstjórnin í yfirlýsingu 21. desember 2013, rétt fyrir jólin, sem var kynnt Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands (2,5%).“

Viðmiðið er 2,5%.

Svo kemur í kjölfarið, með leyfi forseta:

„Lækkun ofangreindra gjalda úr 3% í 2%, eða um 1%, eins lagt er til í þessu frumvarpi tekur mið af þessari yfirlýsingu.“

Ef við gætum fyllstu sanngirni og þessi hækkun um 3% er færð niður um 1%, er þá ríkisstjórnin ekki komin innan þess ramma sem hún gaf út í þessari yfirlýsingu rétt fyrir jól og kynnt var Samtökum atvinnulífsins og ASÍ?