143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega rétt, ef gjaldið var hækkað um 3% en lækkað svo um 1% er hálft ár sem þessi lækkun tekur ekki til. Þá mundum við segja að lækkunin væri um 0,5% og gjaldið næst kannski niður í 2,5%.

Þá kemur spurningin: Hvernig skilur þingmaðurinn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar því að gjaldskrárhækkanir tóku til, eins og þingmaðurinn nefnir, miklu fleiri þátta en bara bensíns, búss og tóbaks?

Ef ég hef skilið rétt af umræðunni hér í dag þá eru allar gjaldskrárhækkanirnar upp á 2 milljarða og lækkanirnar sem eiga að koma á móti eru upp á 460 milljónir þannig að lækkunin mundi ekki vera nema í kringum 1/4. Svo tökum við hálft ár í burtu og þá er upphæðin komin í 230 milljónir.

Hvernig skilur þingmaðurinn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem kom rétt fyrir jólafrí til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ? Var ekki verið að tala um að minnka áhrif allra þessara gjaldskrárhækkana þannig að þær mundu ekki valda meiri verðbólguáhrifum en sem nemur viðmiðum Seðlabankans, um 2,5%? Er það þannig sem þingmaðurinn skilur það?