143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þykir mér góð tillaga hjá hv. þingmanni að verja þessum fjármunum einfaldlega til að draga úr áhrifunum á heilsugæsluna. Þannig kæmi það að mörgu leyti best að gagni, að ráðstafa þessum 460 milljónum, frekar en að vera að tína til einn hundraðshluta úr eyri til að lækka gjöld stóriðjunnar og hvað þetta er nú af skrýtnum liðum sem er að finna í þingmálinu eins og það er hér.

Það er ágætt að þingmaðurinn rifjar það upp að málið komst ekki á dagskrá vikum saman og það er auðvitað ástæða til að orða það líka hvers vegna það komst ekki á dagskrá. Það komst ekki á dagskrá vegna þess að ríkisstjórnin var með þá arfavondu tillögu hér í þinginu að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og tók dag eftir dag og viku eftir viku og lagði þingið einfaldlega undir allan þann vonda málatilbúnað. Þau mál sem vörðuðu hagsmuni heimilanna eða skuldamál eða einhverja slíka hluti voru bara látin liggja og bíða betri tíma. Ríkisstjórnin taldi það vera algert forgangsmál að slíta viðræðum við Evrópusambandið en lét svo gjaldahækkanir fyrir almenning bara bíða hér í hliðarherbergi meðan það brambolt fór fram. Það sýnir ágætlega hve illa stjórnarmeirihlutinn hefur haldið á spilunum eftir jól.

Ég vildi kannski spyrja hv. þingmann út í þessa stefnu í gjaldtökunni, að vera að draga úr skattheimtunni annars vegar í auðlegðarskattinum og veiðigjöldum með annarri hendinni en vera síðan með hinni hendinni að hækka verulega skólagjöld, komugjöld, útvarpsgjöld og önnur gjöld sem leggjast á aðra hópa en veiðigjöldin og auðlegðarskatturinn.