143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru auðvitað pólitískar ákvarðanir. Það hvernig menn standa að gjaldtöku í opinberum rekstri, tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem að sjálfsögðu þarf á sínu að halda til að standa undir samrekstrinum, samneyslunni í samfélaginu, það eru pólitískar ákvarðanir. Og núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt það með mjög afgerandi hætti hvaða pólitísku áherslur hún leggur þegar að þessum málum kemur. Hún hefur tekið ákvarðanir um að afsala ríkinu tekjum af veiðigjaldi upp á milljarða á milljarða ofan, hún hefur tekið ákvörðun um að framlengja ekki auðlegðarskattinn sem, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, var að vísu tímabundin ráðstöfun og hefur verið í þau skipti sem tekin hefur verið ákvörðun um hann en ekkert sem hefði komið í veg fyrir að hann hefði alla vega verið framlengdur áfram. Hér var meðal annars bent á, af hv. þm. Helga Hjörvar, samhengi hans við gjaldeyrishöftin þannig að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að halda honum áfram.

Við sáum það í skattkerfisbreytingunum að það var fyrst og fremst hugsun ríkisstjórnarinnar að lækka skatt á þá sem hafa hæstar tekjur, hún var gerð afturreka að hluta til með þá sem eru í miðskattþrepinu. Svo sjáum við í þessum gjaldskrárhækkunum að það eru tugir prósenta sem komugjöld í heilsugæsluna hækka, sem innritunargjöld í háskólana hækka og svo þegar ríkisstjórnin þarf að setja einhverja peninga í tengslum við gerð kjarasamninga, upp á 460 millj. kr., þá velur hún gjöld og það er pólitískt val að velja lækkun á gjöldum á brennivín, tóbak og eldsneyti. Það er pólitískt val, það er val sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stöndum ekki fyrir.