143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að taka til máls um kafla í þessu máli sem ber yfirskriftina breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, í frumvarpi til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl. Það hefur verið talsvert rætt enda full ástæða til. Þetta skiptir máli hvað varðar aðkomu að kjarasamningum en ekki síst snýr þetta að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þ.e. hvað hún telur að best sé fallið til jöfnuðar til að lækka gjöld í kerfinu okkar. Hún virðist vera sú að lækka bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald, sem þó nemur litlu. Það var byrjað á að hækka það um 3% og síðan var dregið til baka um 1%, þ.e. heildarkostnaðurinn, en eins og kom fram í umræðunni áðan fær þingmaður sem þarf að aka í kringum 25 þús. kílómetra á ári í vasann sem nemur um 2.500 kr. Ég segi með það eins og kannski með tekjuskattslækkunina upp á 5 milljarða sem gerð var í kringum fjárlögin að þetta eru í sjálfu sér svo lágar fjárhæðir á hvern einstakling að margur verður þess tæplega var. Það skiptir kannski minna máli en hvað hefði verið hægt að gera við alla þessa fjármuni ef þeir hefðu verið notaðir í önnur og brýnni verkefni. Ég tel að það sé ekki forgangsmál að lækka álögur á brennivín og tóbak.

Síðan er hér líka lögð til lækkun á umhverfis- og auðlindasköttum, raforkuskatti og kolefnisgjaldinu af eldsneytinu. Eins og hér hefur komið fram er það stóriðjan sem borgar og óþarfi að lækka þar og gefa eftir af grænum áherslum. Við vinstri græn fluttum tillögu um það líka að þetta yrði ekki gert þegar hækkanirnar voru hérna á sínum tíma, eins og gert var víða í sveitarstjórnum. Ríkisstjórnin valdi samt að byrja að hækka og ákvað svo að klóra eitthvað í bakkann. Eins og hér hefur komið fram er svo langt liðið á árið að þetta er bara afar lítið sem út af stendur í stóra samhenginu.

Af því að þetta átti að brúa með arðgreiðslu af ÁTVR velti ég líka fyrir mér hvort fjármálaráðherra hyggist, fyrir hönd ríkissjóðs, taka allan þann arð, þ.e. þessar 470 milljónir, þrátt fyrir að svona langt sé liðið á árið og ljóst að kostnaðurinn vegna þessara aðgerða verður ekki svona mikill eða hvort hann ætlar bara að taka samsvarandi og kostnaðurinn er áætlaður. Mig minnir að það hafi verið í kringum 320 milljónir, miðað við hvaða dagsetningu við horfum á.

Þetta eru engar risafjárhæðir í sjálfu sér, 470 milljónir eða hver niðurstaðan hefði orðið eða verður. Við horfum hins vegar fram á mikinn halla á ríkissjóði og auknar álögur á marga aðra. Hér hafa margir rætt gjaldskrárhækkanir í heilbrigðisþjónustunni og þá verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér hvað hefði verið hægt að gera fyrir þessa peninga ef við hefðum sett þá í velferðina. Velferðin tekur um það bil helming fjárlaga ef við tökum vaxtagjöld ríkissjóðs frá.

Það er heldur ekkert launungarmál að alveg frá hruni höfum við beitt ýmsum tegundum niðurskurðar, búið til tekjur og reynt að skapa tækifæri fyrir fjárfestingar og nýsköpun. Ég sat einmitt á ágætum fundi í dag þar sem ég ræddi við frumkvöðla sem vantar fjármuni. Ég held að það sem út af stendur og við höfum hvað mest rætt um og þreytumst seint á að ræða — ég held nefnilega að við séum öll í hjartanu sammála um að við viljum verja meiri peningum til velferðar- og menntamála og því er þetta óskiljanlegt. Það hefði komið sér betur fyrir þjóðina að fá þetta með öðrum hætti en þeirri flötu lækkun sem hér er lögð til. Ég held einhvern veginn að þessu hafi verið bara sippað fram vegna þess að þetta var einfalt og hægt að redda þessu í hvelli en ekki vegna þess að það hafi búið endilega einhver skynsemi á bak við það eða rökstuddar forsendur fyrir því að þetta væri best til þess fallið að ná jöfnuði handa sem flestum íbúum þessa lands.

Það er nefnilega ágætt að við veltum því aðeins fyrir okkur sem hefur komið fram í ræðum margra þingmanna og ég nefndi líka í fyrri ræðu minni og finnst ástæða til að ræða aftur, þ.e. hvar núverandi ríkisstjórn bar helst niður, að draga úr fjárframlögum til þjálfunar um 100 milljónir og hjá þeim sem þurfa að kaupa og nýta sér hjálpartæki var skorið niður um 150 milljónir. Títtnefnd komugjöld í heilsugæsluna voru hækkuð um 90 milljónir og eins og var ágætlega farið yfir hér áðan var sett fram tillaga um legugjöld sem var svo fallið frá en í staðinn sett á komugjöld þannig að það kemur út á eitt.

Eins og maður segir eru þetta svo sem engar svakalegar fjárhæðir en það skiptir máli fyrir fólk sem jafnvel hefur lítið á milli handanna. Það velur það ekki að verða veikt og það velur það ekki að búa við fötlun eða þurfa á hjálpartækjum að halda. Þess vegna er mjög brýnt að þessi þjónusta sé ekki svo dýr að fólk veigri sér við að leita eftir henni eins og virðist vera orðin raunin. Ég man eftir svari við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur þar sem dregið var saman hvar var verið að hækka gjöld og þrengja að, m.a. í öndunarvélum fyrir börn og lífeyrisþega. Þetta slær mann sérstaklega þegar maður er að velta fyrir sér forgangsröðun fjármuna. Það getur ekki verið að tillagan sem við erum að fjalla um sé úthugsuð. Ég trúi því ekki að það sé meiningin hjá þessari ríkisstjórn að þeir sem veikastir eru fyrir og hugsanlega búnir að vera af vinnumarkaði lengi eða hafa jafnvel aldrei getað verið þar eða geta ekki verið þar til frambúðar eigi að taka á sig auknar álögur.

Konur sem hafa þurft að fara í brjóstnám vegna krabbameins, konur sem vilja notast við gervibrjóst í stað þess að láta byggja upp brjóst sín, þurfa að borga meira. Það er alls staðar verið að þrengja reglur eða auka álögur.

Á sama tíma og við erum að tala um lækkun á bensínskatti er verið að þrengja reglur um hjálpartæki í bíla þannig að þetta stingur svolítið í stúf. Þetta eru grundvallarlífsgæði fyrir þá sem þurfa að nota þetta, þiggja þessa aðstoð í formi þess að þurfa að greiða minna fyrir hana en ella, en auðvitað skiptir það okkur minna máli sem þurfum sem betur fer ekki að búa við þetta. Það hlýtur þá að vera okkar að standa vörð um að þeir sem þurfa fái til þess haldbæran stuðning.

Við hefðum getað forgangsraðað öðruvísi. Við hefðum getað hætt við þessar breytingar í staðinn fyrir að velja lækkanir á áfengi, tóbaki og kolefnissköttum. Auðvitað er ekki hægt að líkja því saman í sjálfu sér hversu lítilvægt það er í raun að lækka gjöld á þessa hluti eða tryggja jafnan aðgang þegar kemur að alls konar heilbrigðisþjónustu, hvort sem hún er í formi innlagnar á sjúkrahús, viðkomu á heilsugæslu eða nýtingar á hjálpartækjum. Það er okkar að standa fyrir því að tryggja frekar aukna fjármögnun vegna þess að við ræddum það mjög mikið eftir hrunið að lengra yrði ekki komist og að við yrðum að gera okkar besta til að forgangsraða í þessa veru. Því kemur þetta á óvart. Hér var lesið upp úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins það sem samþykkt (Gripið fram í.) var á landsfundi og því kemur þetta á óvart.

Um jólin fórum við líka við fjárlagagerðina yfir það og ræddum mikið hinar hækkanirnar sem ég hef ekki talið upp, skráningargjöld í háskólanum, veiðigjöldin sem við erum enn að ræða og það val ríkisstjórnarinnar að framlengja ekki auðlegðarskattinn. Það árar misjafnlega í ríkisbúskapnum eins og í heimilisbókhaldinu og þá þarf maður að leita leiða. Það er augljós munur á hægri stefnunni og vinstri stefnunni sem kemur meðal annars fram í þessu frumvarpi. Það er ekki alvont frekar en annað og við vinstri græn horfum eins og aðrir jákvætt á að það sé staðið við gefin loforð um að endurskoða gjaldskrárhækkanir. Eins og ég sagði áðan hefðum við samt viljað sjá endurskoðunina og forgangsröðunina annars staðar, m.a. í heilbrigðiskerfinu, en ekki með því að lækka álögur á bensín og tóbak sem fæstir verða svo varir við hvort eð er.

Við þurfum að ræða saman á þinginu um hvernig við getum unnið gegn þessum hækkunum í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum saman að finna út úr því hvernig við getum lækkað þennan kostnað og jafnað hann þannig að sem flestir njóti sanngirni. Það á að vera forgangsverkefni okkar að gera áætlanir um aukningu á fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins sem við höfum kannski minna rætt en hitt. Greiðsluþátttaka fólks í heilbrigðiskerfinu á að vera sem allra minnst og það er nokkuð sem við eigum að sameinast um að lækka. Eins og ég sagði áðan verður fólk ekki veikt vegna þess að það velur það, það er staða sem fæst okkar vilja vera í.

Ég velti líka fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að lækka neyslustýringarskattana í stað þess að lækka þjónustugjöld á sjúklinga. Lækkun neyslustýringarskattanna er lögð fram til að þjóna því markmiði að draga úr verðbólgu. Ég velti líka fyrir mér af hverju ríkisstjórnin tekur ekki tillit til þess sem kemur fram í athugasemdum bæði Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins sem senda svolítið kaldar kveðjur vegna þess að þeim fannst þeir fá slíkar að fyrra bragði.

Starfsgreinasambandið skrifaði eftir áramótin og setti þetta í samband við kjarasamninga sem eru hluti þessa máls hérna, með leyfi forseta:

„Blekið er ekki þornað af nýgerðum kjarasamningum þegar stjórnvöld senda kaldar kveðjur til launafólks í formi gjaldskrárhækkana.“ — Það eru þessi 3% sem hækkað var um fyrst. — „Komugjöld á heilsugæslustöðvar hækkuðu um 15–20% þann 1. janúar síðastliðinn.“

Það kom líka fram í umræðunni áðan að það er ekki verið að lækka — og það er mjög mikilvægt að við höldum því til haga — frá tíð síðustu ríkisstjórnar er ekki verið að lækka þessi gjöld, heldur var byrjað á því að hækka þau og síðan er lögð til lækkun.

Ég tek líka undir með ASÍ sem talar um að það sé óljóst hvernig ríkisstjórnin ætli að ná tökum á óstöðugu gengi krónunnar, verðbólgunni eða afnámi gjaldeyrishafta. Það er lítið að gerast í þeim málum. Hagsmunir bæði launafólks og heimila eru ekki tryggðir og ríkisstjórnin hefur ekki sýnt fram á hvernig hún hyggist haga peningamálum til framtíðar. Eins og ég sagði áðan finnst mér þetta illa ígrundað frumvarp um flatan auraniðurskurð sem á svo að sækja í aðra ríkisstofnun, ÁTVR. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera næst þegar kemur að einhverju slíku? Ég átta mig ekki alveg á hvernig á að framkvæma það.

Markmiðið með frumvarpi um opinber fjármál, sem tengjast þessu óneitanlega, er að fjárhagsrammar haldi. Það á ekki að breyta þeim innan ársins og væntanlega er ekki gert ráð fyrir því að ríkið komi með inngrip eða eftirgjöf í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði umfram það sem fram kemur í forsendum fjárlaga hverju sinni. Það væri því áhugavert að hæstv. fjármálaráðherra gæfi okkur álit sitt á þeirri aðgerð sem hann leggur hér til því að hún virðist vera í ósamræmi við markmið frumvarpsins um fjárreiður ríkisins sem hann er að leggja fram og hefur reyndar verið í vinnslu í einhver ár. Hugmyndafræði þess hefur í sjálfu sér legið lengi fyrir. Grunnurinn er að nýju lögin eigi að styrkja fjármálastjórn ríkisins og það er með því að ekki verði gefið eftir með gamla laginu. Því fyndist mér áhugavert að heyra svörin um afleiðingarnar ef ætlunin er að halda í gamla fyrirkomulagið í nýju lögunum.

Virðulegi forseti Ég hef rætt mikið um málefni Vegagerðarinnar og haft áhyggjur af því hvernig þeim verði fyrir komið þegar enn eru lækkuð gjöld sem Vegagerðin hefur fengið til sín í tekjur. Þar eru fram undan bæði mörg lítil og risastór verkefni og Vegagerðin er nú þegar byrjuð að greiða til baka það sem kallað hefur verið fyrir fram greiddar markaðar tekjur. Nú liggur líka fyrir frumvarp um afnám markaðra tekna og það leggst auðvitað af ef þetta nýja frumvarp um opinber fjármál verður að lögum.

Það er mikill veikleiki í fjárlagafrumvarpinu, það hefur komið fram að veikleikamatið er upp á marga milljarða og því finnst mér afar sérstakt ef ríkissjóður er fær um að verða af tekjum með þessum hætti. Svo veltir maður fyrir sér hvort farið verði í enn frekari niðurskurð til að mæta því ef hlutirnir ganga ekki eftir. Þá er ég ekki bara að tala um þetta frumvarp. Verður farið í enn frekari niðurskurð? Hvar mun ráðherrann bera niður? Það er afar stórt áhyggjuefni þegar forgangsröðunin virðist vera með þeim hætti sem hér er.