143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Ég tek undir það og ég hef líka sagt, eins og ég nefndi áðan varðandi einmitt það hversu óraunverulegur sparnaðurinn er sem við sem notum bíla mikið verðum vör við, þá er auðvitað afar sérstakt að velja þetta og hækka um leið á þá sem kannski síður eru aflögufærir. Þetta er svona svipað og ég held að sé með 5 milljarða kr. tekjuskattslækkunina, sem er kannski 2–3 þús. kr. á mánuði og eflaust munar einhverja um það. En það er samt sem áður svo stór hluti sem þetta skiptir litlu máli miðað við það hvað við hefðum getað gert fyrir þær fjárhæðir, þ.e. 470 milljónirnar sem hér áttu nota bene að verða undir, en eru kannski að verða rétt rúmar 300 milljónir miðað við hversu langt er liðið á árið. Þær hefðu komið sér vel í heildarsamhenginu einhvers staðar annars staðar alveg eins og 5 milljarðarnir. En fyrir okkur sem einstaklinga held ég að það skipti minna máli. Þetta er afar röng forgangsröðun, eins og ég fór ítarlega yfir áðan, og maður eiginlega trúir því ekki fyrr en maður tekur á því að þetta sé eitthvað sem ríkisstjórnin vilji raunverulega gera.

Þess vegna segi ég það aftur að ég held að þetta hafi verið vanhugsað og sé fyrst og fremst eitthvað sem var bara af því að það var einfalt að gera þetta, einfalt að skutla þessu inn í umræðurnar eftir áramótin, þess vegna hafi það verið gert.