143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru ekki jafnaðarflokkar þannig að allar óskir þingmannsins um að horft skuli til jafnaðar í þessu efni eru ekki raunhæfar. Aftur á móti segir í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir ári síðan, fyrir kosningarnar, með leyfi forseta:

„Í þágu heimilanna mun Sjálfstæðisflokkurinn standa vörð um velferðina Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Örugg heilbrigðisþjónusta, góð menntun og trygg löggæsla skal vera í forgrunni.“

Þegar kemur að því hvernig verja skuli skattfénu er Sjálfstæðisflokkurinn kannski nær flokki þingmannsins en hana grunar, þ.e. varðandi það að í forgang skuli setja örugga heilbrigðisþjónustu og góða menntun við úthlutun skattfjár.

Í þessu tilfelli er ekki beinlínis verið að hugsa um úthlutun skattfjár heldur hvar eigi að skera niður, þ.e. hvar eigi að lækka gjöld. Hvers vegna er fram komið þetta frumvarp um að lækka gjöld? Það er ekki að frumkvæði stjórnarflokkanna, það er fram komið vegna þess að ríkisstjórnin lofaði að fara í ákveðna lækkun til þess að ná því marki að heildarhækkunin sem fara átti í mundi ekki valda verðbólgu. Ríkisstjórnin lofaði sem sagt aðilum vinnumarkaðarins þessu í samningum þeirra til þess að þeir mundu ná kjarasamningum fyrir jól. En þetta virðist ekki einu sinni ná því.

Nú er ég búinn að læra eitt í þessari umræðu, þ.e. að sú lækkun sem hægt væri að fara í væri hægt algjörlega að gera með því að lækka gjöld á sjúklinga, (Forseti hringir.) lækka sjúklingagjöld. Það mundi algjörlega uppfylla það loforð.