143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í 2. umr. gjaldskrárlækkanir í tengslum við kjarasamninga, frumvarpið er kallað gjaldskrárlækkanir. Þegar ný ríkisstjórn kom að og var að vinna fjárlagafrumvarp sitt síðastliðið haust þá held ég að allir hafi fagnað því að menn settu sér það markmið að reyna að ná hallalausum fjárlögum og reyna að tryggja að endar næðu saman. Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir mikilvægi þess að árangur næðist hvað varðar verðbólgu í landinu þannig að verðtryggð lán hækkuðu ekki nema sem allra minnst og eins líka að menn reyndu að ná kjarasamningum eða sátt um að reyna að auka kaupmátt launþega á Íslandi. Það var farið af stað með þetta.

Það náðist að setja saman hallalaus fjárlög. Ríkisstjórnin gat ekki staðið við öll þau loforð sem hún hafði gefið um lækkanir á hinum og þessum tekjuliðum og að auki kom mjög fljótt fram, grímulaust og eiginlega öðruvísi en maður hafði þorað að óttast, hver forgangsröðunin var þegar verið var að velja hverjar tekjurnar yrðu og hvaða álögum yrði létt af. Þá er ég bara að tala um í fjárlagafrumvarpinu þar sem menn í upphafi nýta ekki tekjumöguleika eins og auðlegðarskattinn, sem kemur að vísu ekki að sök á þessu ári en mun falla niður um næstu áramót. Þar er um að ræða 9–10 milljarða kr. sem eru lagðir á þá sem hafa hvað mest í þessu landi og voru nú há frítekjumörk í þeirri upphæð.

Farið er í tekjuskattslækkun og við skulum muna að á þeim tíma var gert ráð fyrir því að tekjuskattslækkunin, upp á 0,8 prósentustig, yrði eingöngu á milliþrepinu og milliþrepið var þá skilgreint sem 290 þús. ef ég man rétt. Þetta átti að gefa 5 milljarða. Síðan hafði verið áætlað að taka inn í veiðigjöld, eftir eitt besta ári 2012 í sjávarútvegi, frá því að kvótakerfið komst á, ég veit ekki hvort menn finna nokkurt sambærilegt ár, en þá fara menn og lækka gjaldtöku á þessum aðilum. Til að ná endum saman urðu menn engu að síður að skera niður hjá ákveðnum stofnunum, hækka samkvæmt verðbólgu og verðtryggja allar gjaldskrárhækkanir. Þetta lá allt saman fyrir þegar menn voru búnir að semja fjárlagafrumvarpið.

Það kom ágætlega fram á ársfundi Landspítalans – háskólasjúkrahúss í dag að eitt af því sem kom gríðarlega á óvart við fjárlagagerðina og fjárlagafrumvarpið á síðastliðnu hausti var að þar var boðaður 1 milljarður í viðbót í niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þannig lögðu menn út þegar menn lögðu af stað með fjárlagafrumvarpið. Það kom ágætlega fram á þeim fundi að niðurskurður hefði verið mjög erfiður hjá fyrrverandi ríkisstjórn og menn væru komnir að þolmörkum, það var viðurkennt og því var ekki meiri niðurskurður árið 2013, heldur bætt við. Það að frekari niðurskurður skyldi þá koma í nýju fjárlagafrumvarpi vakti furðu. Sem betur fer tókst, með vilja ríkisstjórnarinnar og með aðstoð þingmanna, yfirlýsingu frá okkur í stjórnarandstöðu og baráttu, að leiðrétta þetta. Landspítalinn fékk til dæmis verulegar leiðréttingar á milli umræðna og í meðhöndlun þingsins á fjárlagafrumvarpinu. Á móti kom svo tilviljunarkenndur niðurskurður til að bjarga því að menn næðu endum saman.

Maður skilur svo sem að ríkisstjórnin hafi verið aðhaldssöm í því að fara í lækkanir í tengslum við kjarasamninga. En þegar menn fóru að ræða um það hvort fara ætti í einhvers konar aðdraganda að þjóðarsátt — reyna að koma hlutunum þannig fyrir að kjarasamningar yrðu hóflegir en þó með kaupmáttaraukningu og tryggja að verðbólgan yrði innan þeirra marka sem Seðlabankinn hefði sett — þá spila sveitarfélögin út og lýsa yfir stuðningi við þær hugmyndir með því að segja: Við skulum hverfa frá gjaldskrárhækkunum og halda bara fast í gjaldskrá inn í árið 2014. Þar ríður Reykjavíkurborg á vaðið og gefur yfirlýsingar um að þessari stefnu verði fylgt. Síðan kemur hvert sveitarfélagið á fætur öðru og lýsir því sama yfir, fellur frá gjaldskrárhækkunum. Raunar koma yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um að hún muni að sjálfsögðu taka þátt í þessu með einhverjum hætti og þegar kjarasamningarnir eru gerðir kemur yfirlýsing frá henni um að hún muni leggja sitt til en það liggur ekki fyrir, að mér sýnist, með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að leggja sitt framlag fram.

Það birtist svo seinna, hækkanir sem höfðu verið áætlaðar um 3% á milli ára, sem er í raun og veru umfram verðbólgumarkmiðin og umfram þau markmið sem sett voru í kjarasamningunum og nálægt því sem sett var í launahækkunina — þá kemur í ljós hverju ríkisstjórnin spilar út. Hún spilar aðallega út tveimur atriðum, 1% lækkun og hækkun, svo að ég fari rétt með, þ.e. horfið er frá því að hækkun verði 3% í 2% hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum og á bensíni og orkugjöldum varðandi bíla. Áhrifin á verðbólguna, ef ég man rétt, áttu að verða 0,08% og 460 millj. kr. Þetta kemur síðan seint fram frá ríkisstjórninni í formi þingmáls og hefur tekið ótrúlega langan tíma að ljúka málinu. Það hefur líka haft í för með sér að nú er komin breytingartillaga frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um að gildistíminn verði frá 1. júní í staðinn fyrir frá 1. mars. Bara það er veruleg lækkun af því að menn breyta ekki prósentutölum samtímis. Það sem átti að skila 460 millj. kr. skilar þá aðeins, ef við gerum ráð fyrir að tekjurnar dreifist jafnt á alla mánuði, sem á ekki við um sum af þessum gjöldum, þau eru árstíðabundin að einhverju leyti, þá lækka tekjurnar niður í 322 millj. kr. eða um 133 millj. kr. Þá er það sem í raunveruleikanum er verið að leggja til í kjarasamningum gjaldskrárlækkun á þetta tvennt sem nemur 322 millj. kr.

Það er fróðlegt að skoða þetta í samhengi við það sem kom fram í ræðu hér á undan hjá hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur og í andsvari hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur sem báðar eru í fjárlaganefnd og þekkja málið mjög vel. Þar var líka verið að skoða hver hagræðingarkrafan hafi verið bara í hjálpartækjum og þjálfun, þ.e. þar sem menn þurftu að auka álögur á sjúklinga til að bæta hag ríkissjóðs. Það voru yfir 250 millj. kr. Það er næstum því sama upphæð. Og þegar maður setur þetta í samhengi þá veltir maður fyrir sér: Hvernig stendur á þessari forgangsröðun?

Þegar maður skoðar það svo í samhengi við stóru heildartölurnar þá státar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra af því í viðtali nýlega að þegar sé búið að lækka skatta á Íslandi um 25 milljarða. Þegar menn segja svona, þá segir maður: Mjög flottur árangur, en hverjir voru að fá þessa 25 milljarða? Það var ríkasti hlutinn sem borgaði auðlegðarskatt sem lækkar um 9 milljarða um næstu áramót. Það var tekjuskattslækkunin á þá sem voru með yfir 290 þús. kr. upphaflega og svo upp úr. Það eru veiðigjöldin en sú lækkun var þá metin á 6,4 milljarða og eru núna enn þá meiri. Þetta eru aðilarnir sem voru að fá lækkanir. Á sama tíma er nánast ekki neitt fyrir þau 10–20% af fólkinu í landinu sem hafa lægstu tekjurnar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leyfði sér, þegar við vorum að ræða þetta hér í þinginu, að segja að það megi segja fyrri ríkisstjórn til hróss að hún hafi hækkað lægstu laun það mikið og kjör lífeyrisþega og annarra að það sé eðlilegt að nú fái aðrir hópar eitthvað. Ég get deilt þeirri skoðun með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að margt var mjög vel gert við lægst launuðu hópana og settur sérstakur fókus á að hjálpa þeim hópum og lagður mikill peningur í það. En seint mundi ég hrósa, hvorki ríkisstjórninni né þeim sem þar að komu, fyrrverandi ríkisstjórn, fyrir að þar hefði málinu verið lokið. Það þarf að gera betur. Við horfum upp á það í hinu ríka Ísland — við gerum okkur alveg grein fyrir að kjör almennt þurfa að batna, við þurfum að vinna að því sameiginlega að bæta atvinnuumhverfið og tryggja að afkoma verði almennt betri í landinu — að hóparnir sem hafa það enn verst eru þeir sem eru einhleypir, einstæðir foreldrar, sem eru tekjulægstir og síðan lífeyrisþegar. Við þurfum að gera betur.

Þess vegna er svo sorglegt að horfa upp á þær breytingar sem hér eru að verða í gjaldskrárlækkunum, eða að horfið er frá hækkunum sem er réttara orðalag, að þá skuli í fjárlagafrumvarpinu, til að ná endum saman, vera settir á nefskattar hver á fætur öðrum eða aukin gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu. Nefskattar eru erfiðasta formið af skattheimtu í nokkru landi, þar sem þú þarft að borga krónutölu óháð því hverjar tekjurnar eru. Tekjuskatturinn er miklu sanngjarnari en þessar gjaldtökur. Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér en engin ástæða til annars en halda því áfram, þ.e. þarna voru aukin komugjöld í heilsugæsluna. Þarna var sett á 15 þús. kr. hækkun og hafði þó verið sett myndarleg hækkun á áður, á nemendagjöldum við innritun í opinbera háskóla, en samt rann sá peningur ekki einu sinni til háskólans nema að óverulegu leyti.

Það sama gerist með Ríkisútvarpið. Gjaldið er hækkað, síðan er boðuð lækkun eftir tvö ár, ef ég man rétt, en í millitíðinni á að nota hækkunina á afnotagjaldi Ríkisútvarpsins, sem er nefskattur, til að fjármagna samneysluna. Þetta er eitt versta formið af skattheimtu. Síðan eru gerðir samningar við sérgreinalækna sem höfðu tekið sér viðbótarhækkanir af því að þeir voru utan samnings. Það er fært inn í samninga og þar verða verulegar hækkanir. Hér var áður búið að rekja breytingarnar varðandi hjálpartæki og sjúkraþjálfun sem áttu að færa gjöld á notendur þeirrar þjónustu upp á 250–300 millj. kr. Allt telur þetta hjá heimilunum.

Þetta er þeim mun forvitnilegra þegar maður skoðar forganginn að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er sérstakur kafli um áherslur í lýðheilsu og forvörnum. Er það lækkun á gjöldum á áfengi og tóbak? Talað er um að heimilin séu undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins en allt í einu er skilgreiningin á heimili orðin skuldsett heimili sem er með verðtryggt lán. Það eru þeir sem á að fara að reyna að hjálpa, sem maður ber mikla virðingu fyrir að menn reyni. En þar eru undir stórir hópar sem hafa í raun enga þörf fyrir þessa hjálp, hafa haft sérstakar tekjur af sínu húsnæði og eru með lágar mánaðarlegar greiðslur. Þangað er verið að setja pening á sama tíma og við ráðum ekki við að hjálpa leigjendum eða þeim sem búa við lakari kjör og hafa jafnvel sætt verðtryggðum hækkunum á leigugreiðslum. Það er bókstaflega sárt að fylgjast með því hvernig forgangsröðunin er.

Það kann að vera rétt, sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi hér áðan, að maður getur varla haft þær væntingar til Sjálfstæðisflokksins að hann sé jafnaðarmannaflokkur, ég deili því. En það merkilega er að þeir eru það alltaf fyrir hverjar kosningar í orði. Þeir verða það líka núna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Það var rétt sem hv. þingmaður gerði, hann las upp úr kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og þar kynna þeir allar þessar hugmyndir um gjaldskrárlækkanir á hinu og þessu sem áttu að koma almenningi til góða. Framkvæmdin er svo allt önnur.

Ég skil áhyggjur sem menn hafa af því að bílakostnaður í íslensku samfélagi er mjög hár. FÍB nefnir töluna 15,5% af neyslu venjulegs heimilis, þeir útskýra það ekki nánar. Ég geri ráð fyrir að þeir taki þá dæmigerð neysluviðmið frá þeim tölum sem Hagstofan gefur út og reikni út hlutfallið hvað einn meðalbíll kostar miðað við 15 þús. km akstur á ári, þeir hafa gjarnan notað þá tölu, og kostnaðinn á mánuði, 15,5%, og það vegur, það telur mikið, það er nálægt því að vera eins og maturinn, ég held að hann sé 20% samkvæmt sömu tölu. En þegar maður skoðar svo hvað lækkunin sem hér er verið að boða vegur í þessu bókhaldi þá er það þannig að ef menn væru að aka 15 þús. km, og við gæfum okkur að bíllinn væri frekar neyslufrekur miðað við nútímabíla, og eyddi 10 lítrum á hundraði, værum við að tala um lækkun upp á 1.500–2.000 kr. á ári. Ef við værum með bíl eins og ég er með upp á 25 þús. km akstur þá værum við að tala um 2.500–3.000 kr. á ári, það er lækkunin. Við erum að tala um 150–250 kr. á mánuði, það nemur ekki einu sinni einum bensínlítra á mánuði, í sparnað við þetta frumvarp. Hvernig getur það orðið stórinnlegg í kjarasamninga til að rétta kjör fólks?

Mér finnst þetta svolítið sorglegt. Ef menn hefðu ætlað að lækka kostnað við bílinn hefði verið hægt að gera það með myndarlegri hætti. Það hefði þá verið hægt að lækka þann kostnað eingöngu í staðinn fyrir að taka áfengi og tóbak líka. Á sama tíma eru menn að draga úr framlögum til almenningssamgangna sem eru jafnvel samningsbundin eins og hjá Reykjavíkurborg. Búið var að semja um að borgin fengi milljarð til að reyna að auka möguleikana á því að nýta almenningssamgöngur og verið er að búa til slíkt net um allt land sem hjálpar því fólki sem ekki hefur efni á því að eiga bíla, en þær upphæðir eru skertar. Þannig er allt á sömu bókina lært, ekki er verið að auka jöfnuð í samfélaginu og bæta kjör þeirra sem lakast hafa það heldur er verið að hjálpa öðrum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að millistéttirnar á Íslandi hafa búið við lök kjör eftir hrun og í mörgum tilfellum erfiðleika og við eigum að reyna að breyta umhverfinu á þann veg að tekjur verði meiri í íslensku samfélagi og framlegðin í atvinnulífinu, en þetta frumvarp hjálpar ekki hvað það varðar.

Það hefur alltaf legið fyrir frá því að þetta mál kom fyrst inn í þingið að það verður að afgreiða. Ég geri ráð fyrir að þessari umræðu ljúki í kvöld en málið fari síðan til 3. umr. og atkvæðagreiðslu sem allra fyrst þannig að hægt sé að verða við þessu. Vilji Alþingis liggur væntanlega skýr fyrir með niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar. Allir fagna því að þetta sé að minnsta kosti gert þó við séum að gagnrýna hér hver forgangsröðunin er og segja að skynsamlegra hefði verið að taka einhverja af þessum þáttum, nefskatta, og lækka þá og ná sama árangri hvað varðar verðbólgumarkmið, ég nefndi hér nemendagjöldin eða komugjöld í heilsugæslu.

Það er forvitnilegt að lesa umsagnir um frumvarpið sem bárust í tengslum við afgreiðslu þess. Skoðanir eru auðvitað skiptar. Ég held að allir séu sammála um að gott sé að fá þetta afgreitt en menn gagnrýna engu að síður hver forgangsröðunin er. ASÍ gerir það og mjög harðorð umsögn barst frá Starfsgreinasambandi Íslands þar sem mjög er kvartað undan forganginum. Vísað er í samþykkt sem gerð var 7. febrúar sl., með leyfi forseta:

„Þær gjaldskrárhækkanir sem tóku víða gildi um áramót voru í hrópandi ósamræmi við nýgerða kjarasamninga og urðu til þess að draga úr trú launafólks á að takast mætti að halda niðri verðbólgu og auka kaupmátt. Þá hafa félög innan Starfsgreinasambandsins haldið til haga kröfu um hækkun persónuafsláttarins eða að skattbreytingar kæmu með öðrum hætti þeim tekjulægstu til góða. Ríkisvaldið verður að kannast við sinn hluta ábyrgðarinnar á að friður ríki á vinnumarkaði. Formenn Starfsgreinasambandsins krefjast þess að samtök launafólks eigi aðkomu að gjaldskrárbreytingum og leggja áherslu á að létt sé álögum af fólki sem þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu.“

Engin tilraun er gerð í þessari afgreiðslu nefndarinnar til að færa þarna til, ná þessu sama markmiði með því að breyta áherslum sem hljóta að vera klár skilaboð um að ríkisstjórnarflokkarnir telja að þetta sé mikilvægasta forgangsröðunin til að liðka fyrir kjarasamningum og til að bæta kjör fólks á Íslandi. Ég er því ósammála en mun ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál hljóti afgreiðslu þannig að vilji meiri hlutans komi fram í samræmi við þau loforð sem gefin voru varðandi verðbólgumarkmið, þó að ASÍ hafi efasemdir um að markmiðið náist með þessu.