143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þetta sé rétt greining hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni. Það er auðvitað meðvituð stefna og kosningaloforð, ekki síst Sjálfstæðisflokksins en hefur líka verið kosningaloforð Framsóknarflokksins, að lækka hér skatta en á móti hefur komið aukin gjaldtaka á notendur. Þá getum við spurt okkur: Ef þetta er meðvituð stefna stjórnarflokkanna hverjar eru þá afleiðingar þeirrar stefnu? Ef afleiðingarnar eru þær sem við höfum séð, bara ef við lærum af reynslu annarra ríkja, við sáum þær afleiðingar líka síðast þegar þessir tveir flokkar voru saman í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, afleiðingarnar þá voru vaxandi ójöfnuður í landinu samkvæmt öllum mælingum. Þegar þessir flokkar koma nú með sína gömlu stefnu að því leyti er ekki nokkur spurning, tel ég, hverjar afleiðingarnar verða. Þá erum við að tala um að hér sé nánast meðvituð stefna um að auka misskiptingu í landinu. Mér finnst það ekki féleg tilhugsun ef svo er.

Það væri ágætt að heyra viðhorf hv. þingmanna stjórnarflokkanna um þau mál. Þetta er nokkuð sem fræðimenn um heim allan, stjórnvöld um heim allan, alþjóðastofnanir um heim allan sammælast um að sé ein stærsta ógnin við samfélagslega samheldni og öryggi á 21. öldinni, því að við horfum á meiri samþjöppun í auðmagni á 21. öldinni en sást á 20. öld. Það er eitthvað sem hv. þingmenn stjórnmálaflokkanna ættu að velta fyrir sér þegar þeir koma með tillögur sem miða að því að auka álögur á sjúklinga, auka álögur á stúdenta, fara í staðinn í gjaldskrárlækkanir af því tagi sem menn efast um að skili árangri og létta síðan sköttum á stóru aðilunum.

Þá vil ég koma að annarri spurningu sem er um þá gagnrýni sem birtist í umsögnum Alþýðusambandsins og Starfsgreinasambandsins þar sem þeir efast um að þetta skili raunverulegum hagsbótum. Hvað hefur hv. þingmaður um þau (Forseti hringir.) rök að segja?