143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt umsögninni sem þingmaðurinn nefnir virðist ASÍ hafa skilið málið þannig að þessar gjaldskrárlækkanir hefðu getað komið annars staðar til þess að skila sér í lækkun á verðbólguþrýstingi og ná þeim 0,08% sem Samtök atvinnulífsins segjast í umsögn sinni vera hæstánægð með og vilja sjá og kalla eftir því að frumvarpið verði samþykkt. Eftir því sem þingmaðurinn segir virðist svo vera sem ASÍ hafi skilið það eins og þingmaðurinn, að hægt væri að fara í þessar gjaldskrárlækkanir einhvers staðar annars staðar. Þá er spurningin hvernig ætti að forgangsraða því. Ef við skoðum forgangsröðun landsfundar Sjálfstæðisflokksins væri það frekar í heilbrigðiskerfinu. Þetta er eitt.

Annað er, og því vil ég beina til umboðsaðila Samtaka atvinnulífsins: Samtök atvinnulífsins telja að þessi lagabreyting núna muni leiða til 0,08% lækkunar á verðbólgu, ef það skilar sér allt inn í verðlagið sem það gerir að sjálfsögðu ekki til að byrja með en mun gera það til lengri tíma, þannig að þetta mun ekki minnka verðbólguþrýsting hvað þetta varðar strax. Samt sem áður stendur út af borðinu að þessi lög verða ekki samþykkt fyrr en einhvern tímann á miðju þessu ári, í lok þessa þings sem þýðir að við erum komin fram á mitt ár. Það þýðir að þótt lækkun á verðbólguþrýstingnum kæmi öll til strax og að fullu mundi það samt sem áður ekki valda lækkun á verðbólgu um 0,08% á þessu ári. Þá mundi maður halda að Samtök atvinnulífsins, ef þau vilja klárlega ná því marki, ættu ekki aðeins að kalla eftir því að þetta frumvarp verði samþykkt heldur líka að prósentan (Forseti hringir.) sem kemur til lækkunar verði hækkuð úr 1% í kannski 1,8–2%.