143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kveðju forseta og hefði haldið að hann mundi þá slíta fundi og hleypa okkur út í fagnaðarlætin. Það verður annars gert eftir þennan góða fund. Ég tek undir með hæstv. forseta að það er mikið fagnaðarefni að við séum komin áfram. Ég hlakka þess vegna enn frekar til laugardagsins sem ég veit að flestir gera líka sem á þetta eru að hlýða.

Virðulegi forseti. Þetta mál er að mínu mati gríðarlega skörp birtingarmynd af því hvernig ríkisstjórnin vinnur. Hún stígur fram með mjög skarpar yfirlýsingar, ber sér á brjóst með yfirlýsingum um að hún ætli að gera eitt og annað, en síðan verða efndirnar ansi rýrar. Það sjáum við í þessu frumvarpi. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þeim samningum sem launafólk samþykkti með semingi, byggt á þessum loforðum, ekki sýndur mikill sómi og mikil virðing með því sem hér er verið að skila. Hér er smurt óskaplega þunnt lag, verð ég að segja, auk þess sem aðilar vinnumarkaðarins, sérstaklega samtök launafólks, gagnrýna forgangsröðunina í þessu frumvarpi. Í umsögn frá Alþýðusambandinu og líka í umsögn frá Starfsgreinasambandinu er það mjög gagnrýnt að gengið skuli fram með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi, en ekki tekið á stórum málum, gjaldskrárhækkunum á til dæmis sjúklinga og innan heilbrigðiskerfisins sem miklu minna er talað um.

Ríkisstjórnin sagði í yfirlýsingu sinni fyrir jól, 21. desember sl., að hún mundi við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hefðu verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiddu yrðu minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Ég velti því fyrir mér hvort menn fari alltaf á sjálfstýringuna og hugsi að þetta sé áfengi og tóbak, að gjaldskrárlækkun sé bara alltaf á áfengi og tóbak.

Menn geta ekki sagst ætla að hækka töluvert mikið skráningargjöld í háskólana, komugjöld í heilbrigðisþjónustunni og líka aftengja nefskatt Ríkisútvarpsins við rekstur Ríkisútvarpsins þannig að markviss ákvörðun sé tekin um það í síðustu fjárlögum að fara að nota hluta nefskattsins inn í hítina og þá sé það eina sem mönnum detti í hug þegar kemur síðan að því að draga til baka einhverjar gjaldskrárhækkanir til að uppfylla þetta loforð að skila til baka pínulitlu broti af því sem kom til í hækkunum á áfengi, tóbak og bensín.

Þetta þykir mér afar undarlegt og sérstaklega í ljósi þess — ég hef samúð með þeim sem þurfa að nota bílinn mikið, sérstaklega þeim sem búa í hinum dreifðari byggðum. Það er orðið gríðarlega þungt að þurfa að nota bílinn og kostnaður mikill við rekstur hans. Ég hef samúð með því sjónarmiði, en það er ekki verið að koma til móts við þetta fólk að neinu leyti hér. Þetta er kannski einn bíómiði á ári fyrir eina manneskju. Það er ekki einu sinni hægt að taka fjölskylduna með. Fjölskyldufaðirinn getur mögulega farið í bíó, þ.e. ef þetta skilar sér yfirleitt. Það er ekkert sjálfgefið og við eigum eftir að sjá það gerast eins og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hér fyrr í dag.

Öll þessi miklu loforð angra mig, þessar miklu yfirlýsingar sem síðan verða einhvern veginn að engu. Orðin eru stór, efndirnar eru rýrar. Við sjáum það í skuldaleiðréttingarmálinu. Það þarf ekki að fara yfir það, þar skila menn einhverju broti af því sem lofað hafði verið. Við sjáum þetta í stóra verðtryggingarmálinu þar sem átti að vera aldeilis einfalt með einu pennastriki að kippa henni úr sambandi hér strax eftir kosningar. Núna er liðið ár og það er ekkert að frétta. Það er ekki einu sinni komið fram mál. Það er ekki einu sinni komin fram vísbending um það hvernig menn ætla að fara að þessu, nema það hefur komið fram á einum stað að hugsanlega banni menn einn lánaflokk. Það er ekki verið að afnema verðtryggingu, það er bara verið að banna einn lánaflokk. Afnám verðtryggingar er allt annað mál, það er verið að vinda ofan af því peningakerfi sem við erum með í landinu, þeirri peningastefnu, og það krefst þess að tryggja þarf gjaldmiðilinn með þeim hætti sem gert er með verðtryggingunni.

Ef menn ætla að tala um afnám verðtryggingar þurfa þeir að tala um nýtt peningakerfi en ekki það að banna einn lánaflokk. Ég gef lítið fyrir það, virðulegi forseti, ef það er afnám verðtryggingar í huga þessarar ríkisstjórnar. Þá er enn að fæðast lítil mús. Ég er meira að segja kannski að gera niðurstöðum frá þessari ríkisstjórn, í þessu máli sem ég hef hér nefnt, of hátt undir höfði með því að líkja því við mýs. Niðurstöðurnar eru minni.

Þegar við afgreiddum fjárlögin fyrir jól sem var ástæðan fyrir því að sú yfirlýsing kom fram sem þetta frumvarp byggir á fundu menn aldeilis breiðu bökin í sjúklingum og námsmönnum, í þeim sem lægstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu. Það var bara viðurkennd staðreynd. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór ágætlega yfir það áðan hvernig farið var yfir það hér í ræðustóli að ekkert þyrfti að gera fyrir þá lífeyrisþega sem lægstar hafa tekjurnar af því að fráfarandi ríkisstjórn hafði gert svo mikið fyrir þá. Nú þyrfti að snúa sér að þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er markviss stefna, virðulegi forseti, og við erum ósammála henni.

Ég spyr líka hvort mönnum þyki það eðlileg túlkun á yfirlýsingunni að hvorki eigi að snerta við komugjöldunum né skráningargjöldunum eða tengja aftur nefskattinn út af Ríkisútvarpinu við rekstur Ríkisútvarpsins. Mér finnst það ekki vegna þess að þetta eru þungu bitarnir. Þarna er verið að lauma inn skattlagningu sem leggst hlutfallslega þyngst á þá sem lægstar hafa tekjurnar, m.a. í gegnum nefskattinn hjá Ríkisútvarpinu. Þetta leggst líka hlutfallslega þyngst á komugjöldin, á þá sem lægstar hafa tekjurnar og þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu, að ég tali ekki um námsmenn. Það kom líka fram í umræðunni í haust að það er líklega brot á lögum um háskóla að taka ákvörðun um að innheimta hærri skráningargjöld en skila þeim ekki til háskólanna. Í lögum um háskóla segir mjög skýrt að skráningargjöldin skuli endurspegla kostnað við skráningu. Það er ekki sagt að skráningargjöld skuli endurspegla kostnað við skráningu og svo megi taka eitthvað aukalega af námsmönnum þegar okkur vantar pening í ríkissjóð. Það er ekki það sem stendur í lögunum. Lögin eru mjög skýr hvað þetta varðar. Þess vegna faldi þessi ríkisstjórn í fagurgala alls konar hækkanir á fólk sem þurfti síst á því að halda í okkar samfélagi og eru alls ekki breiðu bökin sem sækja ætti fjármuni til.

Hvað kemur svo hér? Þetta frumvarp sem er hvorki fugl né fiskur fyrir nokkurn mann. Það skilar svo óskaplega litlu, virðulegi forseti. Þetta er enn ein sýndarmennskan og það kom ágætlega fram þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór yfir það áðan hvaða tölur eru í húfi, t.d. hvað varðar bensíngjaldið.

Virðulegi forseti. Það skal lækka veiðigjöldin, það var hægt, í stórum stíl, um milljarða, marga milljarða, það var hægt, en þegar kemur að því að lækka gjaldskrár á þá sem hafa lægstu tekjurnar er það ekki hægt, heldur koma menn fram með svona sýndarmennsku eins og hér. Enda er það þannig að þessari örþunnu smurningu sem hér á sér stað á lækkunum á áfengi, tóbak og bensín er mótmælt í umsögnum til dæmis Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambands Íslands.

Það er eitt sem ég vil gjarnan fá skýringu á frá til dæmis formanni nefndarinnar eða einhverjum sem sat í nefndinni. Ég vona að einhver sé til í að koma hingað á eftir og gefa mér skýringu á því hvers vegna ekki var hlustað á Starfsgreinasambandið og Alþýðusambandið hvað varðar gjaldskrár á heilbrigðisþjónustu. Það kemur skýrt fram í umsögnum beggja þessara aðila og ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin telji sig vera að uppfylla yfirlýsingu sem í fólust loforð til einmitt þessara aðila, þ.e. launafólks innan Starfsgreinasambandsins og ASÍ. Þegar þessi stóru samtök launafólks koma fram með svona mótmæli skil ég ekki hvers vegna ekki er brugðist við. Mér finnst ég þurfa að fá skýringar á því hvers vegna ekki var hlustað. Það kemur ekkert fram í nefndaráliti meiri hlutans um það hvers vegna ekki er hlustað á þetta. Mér finnst við þurfa að fá skýringar á því.

Ég ætla að fara aðeins yfir það hvað segir í umsögnum þessara aðila. Í umsögn Alþýðusambandsins segir:

„Hvað varðar einstaka þætti frumvarpsins er það mat Alþýðusambandsins að mun æskilegra hefði verið að taka til endurskoðunar miklar hækkanir á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustunni sem tóku gildi um áramót. Þær hækkanir koma illa við viðkvæma hópa auk þess sem leiða má að því líkur að lækkanir á umræddum krónutölugjöldum og gjaldskrám sem í sumum tilvikum er brot úr krónu muni skila sér illa út í verðlag til neytenda og því hafa takmörkuð áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.“

Með öðrum orðum mundu gjaldskrárlækkanir eða komugjöld í heilsugæslu og heilbrigðiskerfinu skila sér miklu betur til landsmanna en þessi aðgerð.

Að sama skapi byrjar Starfsgreinasambandið í sinni umsögn á að álykta þannig að það er ekki eins og þessi gagnrýni komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. Starfsgreinasambandið kom þessu vel til ríkisstjórnarinnar í tíma. Í byrjun febrúar kemur beinlínis fram í ályktun:

„Formenn Starfsgreinasambandsins krefjast þess að samtök launafólks eigi aðkomu að gjaldskrárbreytingum“ — þeim sem er lofað í þessari yfirlýsingu — „og leggja áherslu á að létt sé álögum af fólki sem þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu.“

Það er ekki eins og menn hafi setið þegjandi og vonað það besta, að þessi ríkisstjórn mundi átta sig á því að það gæti komið sér vel fyrir fólkið í landinu að lækka kostnað innan heilbrigðisþjónustunnar. Fólk lét í sér heyra. Starfsgreinasambandið, samtök launafólks á Íslandi, lét í sér heyra en það var ekkert á það hlustað. Fólk bað um aðkomu að þessari vinnu en fékk ekki.

Sambandið segir áfram í sinni umsögn sem ég hvet alla til að kynna sér vel:

„Heilbrigðisþjónusta er ekki valkvæð og það eru vísbendingar um að fólk sé farið að veigra sér við að sækja heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Slík staða er algerlega óásættanleg. Gjaldskrár eru sjaldnast tekjutengdar og koma því hart niður á fólki með lægstu tekjurnar. Það er forgangsmál að lækka gjaldskrár í heilbrigðisþjónustu.“

Undir þetta get ég tekið algjörlega heils hugar.

Virðulegi forseti. Sambandið nefnir að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar sé dæmi um breytingar sem eru lagðar til án nægjanlegs samráðs.

„Það kemur tekjulægstu hópunum betur til góða að lækka gjaldskrár í heilbrigðiskerfinu heldur en að lækka skattheimtu á áfengi, tóbak og orkugjafa. Það er alls óvíst að þær lækkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu skili sér að fullu til neytenda“ — eins og ASÍ hefur líka talað um — „og hafi þannig tilætluð áhrif á vísitölu og verðbólgu. Beinar gjaldskrárlækkanir á nauðsynlegri grunnþjónustu skila sér hins vegar beint til þeirra sem þurfa á því að halda.“

Þarna á er grundvallarmunur. Hvort fá heimili mögulega lækkun á rekstri við bílinn og kannski, ef það skilar sér, fyrir bíómiða eða verða komugjöld í grunnþjónustu lækkuð?

Þess vegna vil ég fá svör við því frá þeim sem fjölluðu um málið í nefndinni. Ég vona að hv. formaður nefndarinnar fari að láta sjá sig í salnum en hann hefur ekkert verið við þessa umræðu hér, a.m.k. ekki framan af degi. Ég óska eftir því að kallað verði eftir fulltrúum meiri hlutans í nefndinni þannig að þau geti svarað spurningum okkar um þessi atriði. Ég vona að hv. forseti verði við þeirri ósk.

Ég geri ráð fyrir því að þegar ræðu minni er lokið verði hann við þeirri ósk og við fáum einhver svör við spurningum okkar. Það er líka óþolandi fyrir okkur að vera hér að ræða þetta og þá miklu gagnrýni sem hefur komið frá samtökum launþega á þetta frumvarp sem átti að vera efnd á loforðum til þeirra. Það er óþolandi að það þunnildi sem þetta nefndarálit er skuli vera það eina sem við fáum frá meiri hluta nefndarinnar. Að öðru leyti þegir hann þunnu hljóði gegnum umræðuna. Það er kannski bara vegna þess að það er ekkert hátt á þeim risið yfir því sem hér er verið að skila. Það er líklegasta skýringin á því hvers vegna þau sjást ekki hér í sölum og taka ekki til máls.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að fá svar við því hvers vegna ekki var tekið á móti óskum um samráð um þessar gjaldskrárlækkanir. Hvers vegna var ekki tekið tillit til athugasemda um að gjaldskrár í heilbrigðisþjónustu yrðu lækkaðar? Og hvers vegna er þessi munur á mati á vísitöluna á millum ráðuneytisins og ASÍ, hvers vegna er hann eins mikill og raun ber vitni? Hvers vegna tæpa menn ekki á því og reyna ekki einu sinni að rökstyðja þennan mun í nefndaráliti meiri hlutans?

Ef samtök eins og Alþýðusamband Íslands koma að vinnslu á svona frumvarpi og fullyrða að þarna sé um ofmat að ræða hjá ríkisstjórninni á áhrifum á vísitöluna skyldi maður ætla að slíkri umsögn sé sýnd sú virðing að menn reyni að minnsta kosti að skýra muninn í nefndaráliti. Það er hins vegar ekki gert.

Virðulegi forseti. Mér finnst gert mjög lítið við þá gagnrýni sem fram kemur á þetta mál og það er ekki heldur reynt að svara henni í nefndaráliti. Það er ekki ásættanleg framkoma gagnvart þeim sem hér um ræðir, síst í ljósi þess hvernig málið er til komið. Þetta átti að greiða fyrir kjarasamningum og margir greiddu atkvæði með þeim í góðri trú um að þessu fylgdu einhverjar raunverulegar efndir.

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert á móti þessu — en þetta er ekkert. Hvernig getur maður verið á móti einhverju sem er hvorki fugl né fiskur? Það er ekki verið að efna loforðin sem mönnum voru gefin fyrir utan það líka sem kemur vel fram í nefndaráliti hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, að það er ekki heldur verið að skila til baka nema hluta af þessu ári. Menn byrja 1. júní með þessar lækkanir, drógu þetta mál út í hið óendanlega til að sleppa við að bera einhvern kostnað af því helminginn af árinu. Það er líka að mínu mati óásættanleg framkoma, sérstaklega í ljósi þess að um jafn viðkvæma samfélagsþætti er að ræða og kjarasamninga. Mér finnast þetta ekki boðleg vinnubrögð.

Í lokin, virðulegi forseti, af því ég er nú búin með tíma minn, lýsi ég þeirri von minni að formaður nefndarinnar eða einhver á hans vegum komi hingað og taki þótt það væri ekki nema smárispu í að svara þeim spurningum og athugasemdum sem hér hafa komið fram.