143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir skilaboð hans áðan og veit af því að varaformaður nefndarinnar er hér. Ég var líka að kalla eftir því að hann kæmi og svaraði þeim spurningum sem við höfum lagt fram í umræðunni vegna þess að mér finnst að svara þurfi akkúrat þeirri spurningu sem hv. þingmaður er hér með, þ.e. hvers vegna ekki var hlustað á óskir t.d. Starfsgreinasambandsins um að það kæmi að gjaldskrárlækkunum og ákvarðanatöku um þær. Hvers vegna var ekki hlustað á það og af hverju reyndu menn ekki einu sinni að svara því í nefndaráliti? Hvers vegna var óskum Alþýðusambandsins og Starfsgreinasambandsins um breyttar áherslur í málinu, þ.e. að svigrúmið yrði notað til þess að lækka komugjöldin í heilbrigðiskerfinu, ekki svarað með neinum hætti?

Svo vil ég fá að vita hvers vegna menn reyna ekki að svara eða koma með einhverjar skýringar á því misræmi í mati á áhrifum á vísitöluna sem er greinilega á milli ráðuneytisins annars vegar og ASÍ hins vegar. Mér finnst við ekki geta afgreitt þetta mál nema fá einhver svör við því. Það er algjört grundvallarmál. Ég vona að hv. þm. Pétur Blöndal, eins samviskusamur og hann er, komi hingað upp í lokin og fari í gegnum þetta með okkur. Þetta er stórmál. Því var lýst yfir og fólki lofað að gjaldskrárlækkanir yrðu en svo er gert allt annað en þessi sami hópur vill og þetta tengist jafn stóru máli og viðkvæmu og gerð kjarasamninga. Við þingmenn þurfum auðvitað að fá svör við því hvers vegna þau (Forseti hringir.) eru ekki höfð með í ráðum.