143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi traust á vinnumarkaði held ég að það sé rétt mat hjá hv. þingmanni að það hlýtur að draga úr trausti milli aðila þegar fyrirheit eru svikin með þeim hætti sem hér var gert, en það er ekki bara það að fyrirheit hafi verið svikin heldur hvernig þau eru svikin og á hvaða forsendum það er gert. Vitað er að verkalýðshreyfingin hefur lagt höfuðkapp á að verja velferðarkerfið, að verja velferðarþjónustuna. Þegar það gerist að einu áherslurnar, eina lífsmarkið sem kenna má hjá ríkisstjórninni við að efna fyrirheit sín er í þá átt sem við sjáum núna og það af eins skornum skammti og raunin er, þá gerist hitt á sama tíma að aðgangseyrir að heilbrigðisstofnunum er hækkaður um 20% á heilsugæslustöðvunum og síðan eru það stoðtækin öll og margvíslegur tilkostnaður sem fellur á sjúklinga.

Varðandi brennivínsdeildina er ég að vísa til fjöldapósta sem allir þingmenn þekkja. Hann fór að berast okkur í kringum áramótin svo tugum og hundruðum skipti til að vekja athygli á því hugsjónamáli sem hrærist innra með ýmsum frjálshyggjumönnum og stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins að nú eigi að vera forgangsmál að lækka álögur á áfengi. Hvaða fulltrúa á sú deild hér á þingi? Ja, það er bara ríkisstjórnin. Það birtist m.a. í þessu frumvarpi. Það er hlustað á þetta fólk. Það er ekki hlustað á Starfsgreinasambandið, það er ekki hlustað á Öryrkjabandalagið, en það er hlustað á brennivínsdeild (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins.