143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum sammála um að þetta eru ógurlegar fjárhæðir sem hér er verið að flytja heilt þingmál um, liðlega 200 milljónir þegar allt er saman talið, og færi kannski best á því að þeirri fjárhæð væri varið á einhvern einn stað frekar en að vera að dreifa henni á svona marga liði. Skil ég hv. þingmann rétt í því að hann teldi að því fé væri best varið í heilsugæsluna til þess að koma í veg fyrir þær hækkanir sem ætlaðar voru þar? Eða telur hann að það hafi verið hluti af fyrirheitinu, ekki bara að hverfa frá gjaldahækkunum sem námu 1%, heldur að hækka ekki umfram verðlagsþróun önnur gjöld, eins og skólagjöld og gjöld í heilsugæslunni, sem væri fyrirheit sem ríkisstjórnin ætti að þurfa að standa við hér í þinginu ekki seinna en fyrir þinglok nú í vor?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann út í það sem hann nefndi um auðlegðarskattinn og veiðigjöldin. Skil ég hv. þingmann rétt að hann telji ekki rök vera fyrir því að fella niður auðlegðarskattinn eða lækka veiðigjöldin? Hvaða röksemdir hefur hv. þingmaður fyrir þeirri afstöðu sinni?